„Undir engum kringumstæðum finnst mér eðlilegt að ósk um sakamálarannsókn komi frá pólitískum vettvangi borgarstjórnar. Gætum þess hvaða fordæmi við viljum setja hér í dag,“ sagði Hildur Björnsdóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks í umræðum um skýrslu innri endurskoðunar um Nauthólsveg 100 í borgarstjórn í dag.
Hildur vill að eftirlitskerfi borgarinnar verði tæmt áður en málinu verði vísað lengra og að farið verði fram á framhaldsúttekt frá innri endurskoðun á þeim þáttum skýrslunnar um Nauthólsveg 100, sem veki grun um misferli.
„Eins væri æskilegt að borgarskjalavörður hæfi sjálfstæða úttekt á skjalavörslu borgarinnar. Samhliða myndi borgarráð bregðast við þeim ábendingum sem fyrir liggja. Ef önnur þessara úttekta myndi leiða til gruns um saknæma háttsemi, væri æskilegt að eftirlitskerfi borgarinnar, þ.e. innri endurskoðun eða eftir atvikum endurskoðunarnefnd, myndi vísa slíku máli áfram til borgarlögmanns til frekari meðferðar. Á þessu stigi máls þykir mér ótímabært að draga ályktanir um refsiverða háttsemi og óréttmætt að bera starfsfólk borgarinnar svo þungum sökum þegar rannsókn málsins hefur ekki náð fullum þroska,“ sagði Hildur.
Hún sagði braggamálið vera birtingarmynd enn stærri vanda, „vanda sem kjarnast í virðingarleysi gagnvart skattfé almennings“ og „vanda sem skilur eftir vangaveltur um eðlilegt hlutverk sveitarfélags“. Hún segir jafnframt að málinu sé ekki lokið og segir borgarstjóra sýna málinu léttúð, er hann talar á þann veg.
„Borgarstjóri hefur margsinnis sagt braggamálið búið, það sé bara búið. Ummælin lýsa auðvitað fullkominni léttúð og virðingarleysi fyrir verkefninu fram undan. Braggamálið er sannarlega ekki búið, enda höldum við nú í mikilvæga vegferð, við að tryggja betri stjórnsýslu, vandaðri vinnubrögð, ábyrgð, þegar sýslað er með almannafé,“ sagði Hildur.
Borgarfulltrúinn leggst þó alfarið gegn því, sem áður segir, að kjörnir fulltrúar taki það í sínar hendur að hefja sakamálarannsókn á hendur starfsmönnum borgarinnar, og sagði að samkvæmt meðalhófsreglu stjórnarskrárinnar bæri borgarfulltrúum að velja vægara úrræði til þess skoða málið frekar.
Fyrstu viðbrögð Eyþórs Arnalds oddvita Sjálfstæðisflokksins við tillögu um að borgarstjórn vísaði skýrslunni beint til héraðssaksóknara til frekari rannsóknar voru þau að Sjálfstæðisflokkurinn myndi styðja tillöguna, en ljóst er að Hildur deilir ekki þeirri skoðun Eyþórs.
Umræður um skýrslu innri endurskoðunar um Nauthólsveg 100 hófust í borgarstjórn Reykjavíkur kl. rúmlega 14 í dag og standa enn yfir. Ekki er búið að greiða atkvæði um tillögu þeirra Vigdísar Hauksdóttur og Kolbrúnar Baldursdóttur, um að borgarlögmanni verði falið að vísa skýrslu innri endurskoðunar til þar til bærra yfirvalda, en telja má næsta víst að hún verði örugglega felld.