Tillaga borgarfulltrúanna Vigdísar Hauksdóttur og Kolbrúnar Baldursdóttur um að embætti borgarlögmanns yrði falið að vísa skýrslu innri endurskoðunar um braggamálið til „þar til bærra yfirvalda til yfirferðar og rannsóknar“ var felld í borgarstjórn Reykjavíkur laust eftir kl. 19 í kvöld.
Umræða um skýrsluna og tillögu Vigdísar og Kolbrúnar hafði þá staðið yfir frá því kl. 14 í dag, þegar borgarstjórnarfundur hófst og hefur verið farið um víðan völl í þeim umræðum.
13 borgarfulltrúar greiddu atkvæði á móti tillögunni, 8 greiddu atkvæði með henni en tveir sátu hjá við atkvæðagreiðsluna, þær Hildur Björnsdóttir og Katrín Atladóttir borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks, en frá því greinir Hildur á Twitter-síðu sinni.
Ósk um sakamálarannsókn á undir engum kringumstæðum að koma frá pólitískum vettvangi borgarstjórnar. Við @katrinat greiddum tillögunni ekki atkvæði okkar. Gæta þarf sanngirni og meðalhófs við úrvinnslu málsins ✌️ https://t.co/YmwsfLXr0i
— Hildur Björnsdóttir (@hildurbjoss) January 15, 2019
„Undir engum kringumstæðum finnst mér eðlilegt að ósk um sakamálarannsókn komi frá pólitískum vettvangi borgarstjórnar. Gætum þess hvaða fordæmi við viljum setja hér í dag,“ sagði Hildur í umræðum um málið í borgarstjórn í dag, en hún segir að það færi vel á því að framhaldsúttekt verði gerð á braggamálinu af hálfu innri endurskoðunar.