Vegna legu landsins á hárri breiddargráðu eru birtustundir fáar í boði á Íslandi um hávetur og þeim fjölgar ekki með breytingu á stillingu klukkunnar, segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands. Nú í morgunsárið er norðanátt allsráðandi á landinu og hefur frostið farið undir 14 gráður í Skagafirði.
„Strekkingur er algengur styrkur hennar, en alltaf er þó breytileiki í vindhraða í flóknu landslagi. Það má til dæmis nefna að á suðausturhorninu eru vindstrengir af styrk hvassviðris þar sem kalt loft steypir sér niður af Vatnajökli. Stærstur hluti höfuðborgarsvæðisins er hins vegar í hægviðri í skjóli fjalla.
Eins og svo oft áður í norðanátt verða él norðan- og austanlands. Sunnan heiða er hins vegar léttskýjaður dagur í vændum og því útlit fyrir að sjáist til sólar. Gallinn er hins vegar sá að vegna legu landsins á hárri breiddargráðu eru birtustundir fáar í boði á Íslandi um hávetur og þeim fjölgar ekki með breytingu á stillingu klukkunnar.
Í kvöld hefur norðanáttin gengið niður og dregið úr éljunum. Eins og oft vill verða þegar lægir eftir norðanátt, þá nær frostið sér á strik. Loftið er kalt í grunninn. Í hægum vindi og léttskýjuðu veðri kólnar einnig grunnt lag af lofti næst jörðu vegna útgeislunar. Segja má að kuldinn í kvöld sé því bæði aðfluttur og heimatilbúinn, líkur eru á að frost nái að mælast 10 stig eða meira í flestum landshlutum.
Á morgun nálgast tiltölulega veikluleg vetrarlægð úr suðvestri og sendir úrkomubakka inn á land. Úrkoman í þeim bakka verður yfirleitt snjókoma, en með suðurströndinni nær að hlýna rétt upp fyrir frostmark og þar færir úrkoman sig því yfir í slyddu eða rigningu. Á Vesturlandi, Vestfjörðum og Norðurlandi vestra helst þó úrkomulaust lengst af á morgun,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofu Íslands.
Norðan 8-15 m/s, en 15-20 í vindstrengjum suðaustan til á landinu. Él norðan og austanlands, annars léttskýjað. Lægir smám saman í dag og dregur úr éljum. Frost 2 til 8 stig, en kólnar meira í kvöld.
Austlæg átt 5-10 á morgun. Yfirleitt þurrt norðvestan- og vestanlands. Snjókoma með köflum annars staðar og slydda eða rigning með suðurströndinni. Hiti rétt yfir frostmarki syðst og minnkandi frost í öðrum landshlutum.
Á fimmtudag:
Austlæg átt 5-10 m/s. Bjartviðri norðvestan- og vestanlands. Snjókoma með köflum annars staðar og slydda syðst. Hiti rétt yfir frostmarki með suðurströndinni, en allt að 8 stiga frost í innsveitum fyrir norðan.
Á föstudag:
Austlæg átt 3-8 og dálítil él á víð og dreif, en skúrir með suðurströndinni. Hiti breytist lítið.
Á laugardag:
Suðaustan 10-18 og rigning eða slydda, hiti 0 til 5 stig. Þurrt norðaustan til og vægt frost. Suðvestlægari síðdegis með snjókomu eða slyddu og síðar éljum á sunnan- og vestanverðu landinu.
Á sunnudag:
Suðvestanátt og él, en léttskýjað norðaustan- og austanlands. Frost 0 til 5 stig.
Á mánudag:
Ákveðin suðaustanátt með rigningu, slyddu eða snjókomu, en úrkomulítið norðanlands. Hiti kringum frostmark.
Á þriðjudag:
Austlæg átt með úrkomu á austurhelmingi landsins, en þurrt vestan til. Hiti nálægt frostmarki.