Fimmtíu íbúðir afhentar í lok febrúar

Framkvæmdir við Bríetartún 9-11 á síðasta ári.
Framkvæmdir við Bríetartún 9-11 á síðasta ári. mbl.is/​Hari

Verið er að leggja lokahönd á fimmtíu íbúðir í Bríetartúni 9-11 og til stendur að afhenda þær í lok febrúar.

Þetta segir Pétur Guðmundsson, stjórnarformaður fasteignaþróunarfélagsins Eyktar.

Samkvæmt söluvef Höfðatorgs eru 40 íbúðir af 94 óseldar í íbúðaturninum. Af þeim 54 sem eru seldar er heimild fyrir skammtímaleigu í 38 þeirra. Að sögn Péturs keyptu ýmsir aðilar íbúðirnar 38, bæði einstaklingar og félög. 

Pétur segir að töluvert sé verið að skoða íbúðirnar sem eru óseldar og kveðst til að mynda eiga von á tilboðum í tvær til þrjár fyrir helgi. Hann segir það venjulega þannig í fasteignabransanum að íbúðir fari að seljast þegar nær dregur afhendingu og kveðst vera ánægður með gang mála til þessa.

Bríetartún 9-11 er tvö sambyggð fjölbýlishús og kosta íbúðirnar að meðaltali 64 milljónir króna. „Þetta er ekki dýrt miðað við gæðin,“ segir Pétur aðspurður og nefnir að í íbúðunum sé vatnsúðakerfi, hiti í gólfi og svalalokanir.

Bríetartún 9-11.
Bríetartún 9-11. Teikning/PKdM Arkitektar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka