Boðað hefur verið til fundar hjá ríkissáttasemjara á mánudaginn í næstu viku í kjaraviðræðum Eflingar, VR, Verkalýðsfélags Akraness og Verkalýðsfélags Grindavíkur við Samtök atvinnulífsins. Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir að hreyfing sé komin á málin.
Ragnar segir efnislega afstöðu SA gagnvart kröfugerðum stéttarfélaganna loks liggja fyrir. „Það er það sem við höfum verið að þrýsta á og kalla eftir.“
Þungt hljóð var í Ragnari í gær, sem sagði koma til greina að viðræðum yrði slitið næðist ekki árangur á þessum þriðja fundi stéttarfélaganna og SA síðan deilunni var vísað til sáttasemjara. Ragnar segir að viðræðum verði ekki slitið að svo stöddu.
„Það skiptir öllu máli fyrir okkur að fá afstöðu þeirra þannig að við getum farið með þetta í okkar bakland og rætt efnislegar niðurstöður fundanna. Það hefur hingað til ekki verið hægt.“
Hvað afstöðu SA til kröfugerðar félaganna varðar segir Ragnar það liggja ljóst fyrir að stjórnvöld þurfi að koma að deilunni. „Nú er ljóst að stjórnvöld þurfa að koma að þessari deilu með einhverjum hætti. Þetta mun ekki leysast öðruvísi.“
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, sagði að fundurinn í morgun hefði verið fínn. „Það var ákveðið að hittast í næstu viku sem hlýtur að segja einhverja sögu,“ segir Halldór.
Hann segir að meðal annars hafi verið rætt um kostnaðarmat kröfugerðanna og einnig lagt mat á svigrúm atvinnulífsins til launahækkana til langs tíma.
„Hver fundur færir okkur nær lausn,“ segir Halldór þegar hann er spurður hvort fundurinn hafi verið skref í rétta átt en segist ekki geta tjáð sig um hvort langt sé á milli deiluaðila.