Að segja „ég er nóg“ dugi ekki

Skilaboðin „þú ert nóg“ hafa verið áberandi í auglýsingaherferð vegna …
Skilaboðin „þú ert nóg“ hafa verið áberandi í auglýsingaherferð vegna fyrirlestrar Öldu Karenar, sem fram fer í Laugardalshöll annað kvöld. Sálfræðingafélag Íslands segir þau ekki duga, þegar um alvarlegan vanda eins og sjálfsvíg og skilgreindar geðraskanir er að ræða og geti jafnvel verið skaðleg. mbl.is/Arnar Þór

„Heilbrigðisstarfsmönnum ber siðferðisleg skylda til að benda á það þegar opinber umræða er á villigötum, þegar hætta er á að umræða um heilsu fólks sé líklegri til að skaða en hjálpa,“ segir í færslu á Facebook-síðu Sálfræðingafélags Íslands, sem skrifuð er í tilefni ummæla fyrirlesarans Öldu Karenar Hjaltalín, sem vakið hafa mikla umræðu í samfélaginu í vikunni.

Ummæli Öldu Karenar þess efnis að setningin „ég er nóg“ gæti jafnvel bjargað „ótrúlega mörgum mannslífum“, sem hún sagði meðal annars í viðtali við Smartland á mbl.is í byrjun mánaðar og síðar í sjónvarpsviðtali á Stöð 2, hafa verið gagnrýnd af sérfræðingum, meðal annars Hafrúnu Kristjánsdóttur sálfræðingi sem mætti ásamt Öldu Karenu í Kastljós á RÚV  á þriðjudag og sagði það „alveg ljóst“ að það væri ekki lausn á sjálfsvígsvanda að segja „ég er nóg“.

Hafrún sagði það einnig ámælisvert að tala með þessum einfalda hætti til fólks sem líði illa og segjast vera með lausnir á vanda þess.

„Mér finnst siðferðislega rangt að selja fólki þessa hugmynd og taka fyrir það pening,“ sagði Hafrún í Kastljósi, en Alda Karen heldur fyrirlestur í Laugardalshöll annað kvöld og hafa skilaboðin „þú ert nóg“ verið áberandi í auglýsingaherferðinni vegna viðburðarins.

Miðaverð á fyrirlestur Öldu Karenar er 12.990 kr. en í lýsingu á viðburðinum á miðasöluvef á netinu segir að Alda Karen muni svara „öllum þeim spurningum um lífið og heilann sem hún hefur fengið svör við í gegnum tíðina ásamt því að tala við Guðna Gunnarsson lífsráðgjafa og Sigríði A. Pálmarsdóttir [sic] hjúkrunarfræðing og dáleiðara um sjálfsdáleiðslu og mátt athyglinnar.“

Rétt er að taka fram að Alda Karen hefur sagt að allur ágóði af viðburðinum, sem uppselt er á, muni renna til Pieta-samtakanna, sem sinna forvarnastarfi gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða og styðja við aðstandendur.

Einfaldar lausnir dugi ekki gegn alvarlegum vanda

„Það er gott og gagnlegt að vera bjartsýnn, setja sér markmið, vinna markvisst að þeim og vona það besta. Jafnvel segja stundum „ég er nóg“. Það getur hjálpað þeim sem eðlilega eru stressaðir fyrir próf eða eru með fiðrildi í maganum þegar halda á ræðu. Þegar hinsvegar um er að ræða alvarlegan vanda, sjálfsvíg og skilgreindar geðraskanir sem hafa veruleg truflandi áhrif á daglegt líf fólks þá duga einfaldar skyndilausnir því miður ekki og það að halda því fram getur haft skaðleg áhrif,“ segir í færslu Sálfræðingafélagsins.

Einnig er bent á að þegar heilbrigðisstarfsmenn sinni þeirri skyldu sinni að koma með ábendingar inn í umræðu um heilsu fólks, komi það „hvorki nornaveiðum né menntasnobbi við,“ en í umræðu vikunnar hefur borið á því að einhverjum þyki fjölmiðlar og almenningur ganga hart fram í gagnrýni á ummæli Öldu Karenar.

„Greinum á milli í umræðunni. Þegar við tölum um geðraskanir og mögulega meðferð þá vöndum við okkur og tölum af ábyrgð. Gerum ekki lítið úr alvarlegum og flóknum vanda með því að benda á skyndilausnir,“ segir í niðurlagi færslu Sálfræðingafélagsins.

Fréttin hefur verið uppfærð og því bætt við að ágóði af fyrirlestri Öldu Karenar renni til Pieta-samtakanna, eins og fram kom í viðtali hennar í Kastljósi fyrr í vikunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert