Skólaráð Glerárskóla og hverfisnefndar Holta- og Hlíðahverfis á Akureyri hefur óskað eftir því við skipulagsráð bæjarins að farið verið í aðgerðir til að bæta öryggi nemenda á leið í skólann.
Óskað er eftir því að farið verði í gerð ganga eða göngubrúar yfir þjóðveg á svæði milli Glerár og hringtorgs við N1. Einnig er óskað eftir því að settar verði gangbrautir víðar á Skarðshlíð, til dæmis við Höfðahlíð og að farið verði í aðgerðir til að lækka umferðarhraða á Höfðahlíð.
Skipulagsráð óskaði á fundi sínum í gær eftir umsögn skipulagssviðs og umhverfis- og mannvirkjasviðs vegna málsins.
Fram kemur í bréfi skólaráðs til skipulagsráðs að í mörg ár hafi nemendur í Glerárskóla sem búa við Lyngholt og Stórholt þurfti að ganga yfir Glerárgötu til að komast í skólann. Þar segir að Glerárgata sé mikil umferðaræð og að mörg umferðarslys hafi orðið við göngubrautina á milli Glerár og hringtorgsins við N1.
Framkvæmdir hafa undanfarið verið við götuna og eru núna komin gönguljós við gangbrautina. Þrátt fyrir það segir ráðið hraðann á götunni enn vera mjög mikinn og því þurfi að gera göng eða göngubrú yfir Glerárgötu á þessum stað.
„Ekki eru nema nokkrar vikur síðan nemandi í skólanum varð fyrir alvarlegu bílslysi á þessum stað og brotnaði illa á læri og mjaðmakúlu. Það er því afar brýnt að auka umferðaröryggi nemenda enn meira en gert hefur verið,“ segir í bréfinu.