Vegagerðin kynni hugmyndir um Hringbraut

Rósa Björk Brynjólfsdóttir segist vilja heyra hugmyndir Vegagerðarinnar að mögulegum …
Rósa Björk Brynjólfsdóttir segist vilja heyra hugmyndir Vegagerðarinnar að mögulegum úrbótum í þágu umferðaröryggis við Hringbraut. mbl.is/Hari

Umferðaröryggi Hringbrautar í Reykjavík verður til umræðu á fundi umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis í dag klukkan fjögur. Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður VG, segir í samtali við mbl.is að hún hafi beðið um fundinn vegna bílslyss þar sem ekið var á barn fyrir nokkrum dögum.

Hún segist bera þær væntingar til fundarins að heyra hvaða hugmyndir Vegagerðin hefur um hvað sé hægt gera til þess að bæta umferðaröryggi, en Hringbraut fer í gegnum fjölmennasta hverfi Reykjavíkur og þurfa börn sem búsett eru báðum megin við götuna að sækja skóla sem er öðrum megin við hana.

Bæði fulltrúar Vegagerðarinnar og Reykjavíkurborgar verða gestir nefndarinnar.

Spurð hvort hægt verði að fara í úrbætur á þessu ári í ljósi þess að búið er að samþykkja fjárlög fyrir árið, segir hún það vel geta gerst enda liggur ekki fyrir nákvæmlega hvaða aðgerðir þurfi að fara í og þær þurfi ekki endilega að hafa í för með sér mikinn kostnað, fyrst og fremst þurfi að kortleggja hvaða lausnir séu fyrir hendi.

Á níunda tímanum að morgni níunda janúar var ekið á barn á gatnamótum Meistaravalla og Hringbrautar og var það flutt á bráðamóttöku, þó var ekki talið að barnið hefði slasast alvarlega.

Sett var á gangbrautarvarsla í kjölfar slyssins sem sögð var tímabundin lausn. Reykjavíkurborg er ekki heimilt að ráðast í úrbætur án aðkomu Vegagerðarinnar þar sem vegurinn er í eigu þess síðarnefnda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert