Árið 2019 verði enn eitt metárið í ferðaþjónustu

Bókunarstaðan virðist vera svipuð og í fyrra.
Bókunarstaðan virðist vera svipuð og í fyrra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég er sannfærður um að árið 2019 verður stærra en 2018 í komum ferðamanna til landsins. Reksturinn á eftir að ganga vel í ár,“ segir Þórður Birgir Bogason, framkvæmdastjóri RR Hótela.

Hann segir hrakspár um niðursveiflu í ferðaþjónustu ekki hafa ræst. Þvert á móti líti árið vel út.

„Bókunarstaðan er að minnsta kosti jafn góð og í fyrra ... Maður óttaðist hvernig staðan yrði á árinu 2018. Þær áhyggjur reyndust óþarfar,“ segir Þórður Birgir. Verð á gistingu sé orðið „eðlilegra“.

RR Hótel hafa vaxið hratt á síðustu árum. Félagið tók m.a. yfir rekstur Turnsvítanna í Höfðatorgsturninum í fyrra en þær eru lúxushótel. Þá áformar félagið að opna nýtt hótel á Hverfisgötu í lok næsta mánaðar.

Þórður Birgir segir mikla samkeppni á markaðnum. Það komi sér vel fyrir ferðamenn. Þá hafi stóraukið framboð á þjónustu í miðborginni á síðustu árum styrkt borgina sem áfangastað. Það sé aftur líklegt til að örva eftirspurnina. Hátt þjónustustig yfir hátíðarnar hafi skilað sér.

Ráðstafanir vegna verkfalla

Kristófer Oliversson, formaður FHG – fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu, segir hótelrekendur uggandi vegna mögulegra verkfalla.

„Maður hugsar það ekki til enda ef skæruverkföllum verður beitt og reynt að loka fullbókuðum hótelum. Það er mikill ábyrgðarhluti. Því ef gestirnir ná að koma til landsins geta þeir aldrei komið að lokuðum hótelum ... Það verður mikill skaði fyrir orðspor okkar og framtíðarafkomu í greininni ef allt fer á versta veg og endar í hörðum átökum,“ segir Kristófer.

Eigendur gististaða bíða eftir því að óvissu í ferðaþjónustu létti. „Menn bíða og horfa til verkfalla og eftir því hver niðurstaðan verður hjá WOW air. Óvissan er svo mikil. Því er hvorki hægt að leyfa sér að vera bjartsýnn né svartsýnn. Ef samið verður í þessum mánuði, og WOW air lýkur sínum málum, erum við bjartsýnir. Ef hvorugt gerist þyngist hins vegar brúnin á mönnum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert