Boðar lækkun tekjuskatts

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir að unnið hafi verið að útfæringu …
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir að unnið hafi verið að útfæringu svigrúms til lækkunar tekjskatts, spurður um aðkomu ríkisins að kjaraviðræðum. mbl.is/Eggert

Unnið hefur verið að því um langt skeið að útfæra leiðir til þess að aðstoða aðila vinnumarkaðarins að ná saman í yfirstandandi kjaraviðræðum og þegar hefur verið gripið til ráðstafana. Þetta segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra í samtali við mbl.is um mögulega aðkomu ríkisins að kjaraviðræðum.

Þá segir hann mikla vinnu hafa verið lagða í að útfæra svigrúm til þess að lækka tekjuskatt einstaklinga.

Spurður hvort standi til að lækka tekjuskatt á næstunni svarar Bjarni því játandi. „Við boðuðum það að við hefðum tekið frá svigrúm í ríkisfjármálaáætlun til þess að lækka tekjuskattinn og við munum standa við það,“ segir fjármálaráðherra.

Bjarni segir ýmsum aðgerðum þegar hafa verið hrint í framkvæmd til þess að mæta kröfum aðila vinnumarkaðarins. „Til að mynda með hækkun atvinnuleysisbóta í fyrra, sömuleiðis þær áherslur að styrkja barnabætur til lágtekjufólks og hækka persónuafsláttinn,“ útskýrir hann.

Hann vísar einnig til þess að sérstakir starfshópar um húsnæðismálin séu að störfum. „Svo eru fleiri atriði sem eru nefnd sem að er mis mikil áhersla lögð á af einstökum aðilum, en ég held að öll þessi mál séu í ágætis farvegi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert