Sendinefnd utanríkisráðuneytisins og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins fundaði með fulltrúum samgönguráðuneytis Japans í Tókýó í gær um gagnkvæm loftferðasamskipti.
Fram kemur í fréttatilkynningu að samkomulag hafi náðst á fundinum sem greiði fyrir beinu áætlunarflugi milli Íslands og Japans, auk frekari möguleika á leiguflugi. Jafnframt hafi verið ákveðið að löndin skyldu ræða áfram um mögulegan loftferðasamning á milli landanna.
Þá hafi fulltrúar íslenskra flugrekenda einnig átt af sama tilefni fundi með japönskum flugfélögum þar sem fram hafi komið vilji til aukins samstarfs.