„Hann býður upp á ótrúleg tækifæri til þess að taka góðar ákvarðanir,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í samtali við mbl.is um nýjan gagnagrunn stjórnvalda um tekjur landsmanna. Þá segir hún gagnagrunninn gera stjórnvöldum kleift að meta félagslegan hreyfanleika á Íslandi.
Vefurinn tekjusagan.is sem gerir gagnagrunn stjórnvalda aðgengilegan almenningi var kynntur á blaðamannafundi í Ráðherrabústaðnum í dag.
Hún segir að með því að það liggi fyrir raungögn um tekjur ólíkra hópa sé hægt að mæla árangur stjórnvalda og stendur til að uppfæra gagnagrunninn ár frá ári.
„Þetta snýst ekki um að sýna fram á eitthvert himnaríki heldur sýna hvar við getum gert betur og hvað hefur gengið vel,“ segir Katrín sem bendir á að tölurnar byggi á meðaltölum og verður að hafa í huga að á bak við meðaltöl sé alltaf ákveðin breidd af fólki.
„Þetta hjálpar okkur einmitt að ákveða hvaða stefnu við viljum taka þegar kemur að stuðningi stjórnvalda, hvar þurfum við að leggja sérstaka áherslu?“ segir hún.
Katrín segir stjórnvöld opin fyrir ábendingum til þess að þróa gagnagrunninn frekar, til að mynda með því að taka til greina fleiri breytur. Þá verður gagnagrunnurinn ákveðin leið til þess að árangursmæla starfsemi stjórnvalda.
Gagnagrunnurinn hefur verið kynntur aðilum vinnumarkaðarins, en hann er ekki sérstaklega gerður sem innspil stjórnvalda í yfirstandandi kjaraviðræður, að sögn forsætisráðherra. Hún segir jafnframt að oft hafi verið skortur á raungögnum sem þessi gagnagrunnur býður upp á.
Fyrirtækin Metadata og Analytica komu að gerð gagnagrunnsins og kostaði gerð hans 22 milljónir króna.