Fréttum um umhverfismál hefur fjölgað um tæp 80% á fimm árum og 56% aukning hefur orðið á fréttum um plast á síðustu þremur árum. Þetta kom fram í ávarpi Guðmundar Inga Guðbrandssonar, umhverfis- og auðlindaráðherra, á umhverfisráðstefnu Gallup í morgun.
„Þegar við förum enn lengra aftur í tímann verður myndin enn dramatískari. Þannig voru sem dæmi sagðar 164 fréttir sem innihéldu orðið „loftslagsbreytingar“ árið 2010 en í fyrra tæplega þúsund,“ sagði Guðmundur Ingi.
Í ávarpi sínu fagnaði ráðherra þeirri þróun sem hefur orðið í umhverfisvitund þjóðarinnar og kom glöggt í ljós í niðurstöðum könnunar Gallup, þar sem 63% sögðust hafa breytt hegðun sinni síðastliðið ár til að lágmarka áhrif sín á umhverfi og loftslagsbreytingar.
Þessa breytingu á viðhorfum fólks má hvað helst rekja til aukinnar umræðu, fréttaumfjöllunar og aukinnar fræðslu.
„Ég hef alltaf haft þá bjargföstu trú að það að auka sýnileika umhverfismála skipti máli,“ sagði Guðmundur Ingi. Þrátt fyrir aukna umfjöllun og meðvitund þjóðarinnar um umhverfismál væru niðurstöður könnunar Gallup þó ekki eintóm hamingja.
Um 75% fólks gefur viðleitni stjórnvalda og sveitarfélaga til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda meðaleinkunn eða lægra. Guðmundur Ingi segir það þó sýna að fólk sé kröfuhart í þessum málaflokki, sem sé gott.