Þorgils Þorgilsson, verjandi Sindra Þórs Stefánssonar, sem hlaut í gær fjögurra og hálfs árs fangelsisdóm í Héraðsdómi Reykjaness fyrir innbrot í fjögur gagnaver og tilraunir til tveggja innbrota til viðbótar, segir að líklega verði niðurstöðunni áfrýjað. Ekki hefur þó verið tekin endanleg ákvörðun um áfrýjun.
„Þetta er langur dómur, mikið að fara yfir,“ segir Þorgils í samtali við mbl.is, en í dómnum er því algjörlega vísað á bug að skýringar Sindra, um að erlendur fjárfestir sem hann sjálfur óttist hafi lagt á ráðin með honum um innbrotin, haldi vatni.
Auk Sindra var Matthías Jón Karlsson dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi og Hafþór Logi Hlynsson í tuttugu mánaða fangelsi. Aðrir sakborningar fengu vægari dóm. Öllum sakborningum var gert að greiða Advania rúmar 33 milljónir króna í skaðabætur.
Aðspurður hvort það séu einhver atriði í niðurstöðu héraðsdóms sem hann setji spurningarmerki við segir Þorgils að hann gæti verið í tuttugu mínútur í símanum við blaðamann ef hann ætti að fara út í þau efni.
„Ég er ekkert sammála öllu sem þarna kemur fram, en það er kannski ekkert sem ég get gefið út núna,“ segir Þorgils.