Ég er aftur lifandi!

Hjördís Árnadóttir.
Hjördís Árnadóttir. Haraldur Jónasson/Hari

Hjör­dís Árna­dótt­ir vaknaði slöpp að morgni 17. júní 2011 og um kvöldið var henni vart hugað líf. Meinið var svæs­in sýkla­sótt út frá sýk­ingu í eggja­stokk sem þurfti að fjar­lægja. Leiðin til heilsu var löng og ströng og tveim­ur mánuðum eft­ir áfallið þurfti að fjar­lægja báða fæt­ur Hjör­dís­ar neðan við miðjan sköfl­ung vegna dreps. Við henni blasti nýtt líf og það er fyrst núna í vet­ur að Hjör­dís hef­ur náð að vinna að mestu úr áfall­inu og get­ur farið að horfa fram á veg­inn.

„Ég ætlaði að fara með börn­in í bæ­inn en var orðin las­in, þannig að pabbi og syst­ir mín fóru með þau í staðinn en ég bjó á þess­um tíma tíma­bundið heima hjá for­eldr­um mín­um. Mér hrakaði jafnt og þétt yfir dag­inn, var orðin mjög mátt­far­in og þegar ég gat ekki einu sinni haldið á brauðsneið um kvöldið tók faðir minn af skarið og hringdi á sjúkra­bíl,“ seg­ir Hjör­dís.

Hjör­dís var með fullri meðvit­und en man eigi að síður ekk­ert eft­ir þess­um degi sem er vænt­an­lega af­leiðing af svæf­ing­unni sem hún fékk á spít­al­an­um. Hún get­ur haft aft­ur­virk áhrif. Fyr­ir lá að Hjör­dís var fár­veik og út­litið var raun­ar svo slæmt að for­eldr­ar henn­ar og systkini fengu sím­tal um nótt­ina þess efn­is að þau ættu að drífa sig upp á spít­ala til að kveðja hana. „Ekki var ljóst hvort ég myndi lifa en kæmi ég aft­ur vissu lækn­arn­ir ekki hversu mikið yrði eft­ir af mér,“ seg­ir Hjör­dís. 

Leiddi til sýkla­sótt­ar­losts

Um há­degi dag­inn eft­ir fannst loks­ins meinið, heift­ar­leg sýk­ing í öðrum eggja­stokkn­um sem hafði leitt til svæs­inn­ar sýkla­sótt­ar sem hér um bil dró Hjör­dísi til dauða. Eggja­stokk­ur­inn var fjar­lægður þegar í stað. Hjör­dísi var haldið sof­andi í önd­un­ar­vél í um tvær vik­ur. Það hjálpaði til að Hjör­dís var í góðu lík­am­legu formi, þannig að lík­am­inn hafði „nóg að éta“, eins og hún orðar það sjálf. „Ég man vita­skuld ekki neitt frá þess­um tíma en löngu seinna fékk ég minn­ingu um að ég hefði dáið og ekki kom­ist út úr lík­am­an­um. Það var mikið sjokk. Svona ferðalag er fullt af lit­brigðum.“

Hjör­dís vaknaði með sýkla­sótt­ar­lost og gat sig hvergi hrært; reyndi að tjá sig en kom ekki upp orði, svo mátt­far­in var hún. Öll vöðva­starf­semi lá niðri, auk þess sem drep var komið í fing­ur, tær og nef. Allt var þetta biksvart á lit­inn og óhugn­an­legt á að líta. Þess utan var Hjör­dís lengi að jafna sig eft­ir önd­un­ar­vél­ina.

„Ég var lengi að vinna úr þessu,“ seg­ir hún. „Þegar ég loks­ins náði átt­um leið mér eins og ég væri 170 ára göm­ul. Var ekki leng­ur sama mann­eskj­an. Eft­ir þetta skil ég vel hvernig það er að vera ósjálf­bjarga gam­al­menni og upp á aðra kom­in.“

Ekki bætti úr skák að Hjör­dís var með mikla spít­ala- og stofnana­fób­íu og það að liggja inni var áfall út af fyr­ir sig – fyr­ir utan allt annað. „Þetta hef­ur á all­an hátt verið galið ferðalag,“ seg­ir hún og hrist­ir höfuðið.

Hélt hún myndi halda fót­un­um

Fing­ur og nef jöfnuðu sig en tærn­ar voru dán­ar og fyr­ir lá að þær yrði að fjar­lægja. Til að byrja með voru lækn­ar þó bjart­sýn­ir á að Hjör­dís myndi halda fót­un­um að öðru leyti. Fyrst var talað um að skrapa ilj­arn­ar og hæl­ana en þegar á reyndi voru dauðir vef­ir ofar og á end­an­um þurfti að fjar­læga báða fæt­ur henn­ar frá miðjum sköfl­ungi. Það var gert um tveim­ur mánuðum eft­ir að hún veikt­ist. „Mér brá auðvitað þegar mér var sagt að taka hefði þurft meira af fót­un­um en til stóð í upp­hafi en áfallið kom þó ekki fyrr en löngu seinna. Ég var ennþá svo mátt­far­in og utan við sjálfa mig að ég gat ekki melt þess­ar upp­lýs­ing­ar að neinu gagni. Ég fékk smá sjokk en síðan fór allt í sama farið. Það var eig­in­lega ekki fyrr en síðasta haust að upp fyr­ir mér rann ljós: Djös, ég er búin að missa báða fæt­urna!“

Hún þagn­ar um stund.

„Líf mitt á þess­um tíma stýrðist af kvíða, fé­lags­fælni og áfall­a­streiturösk­un á háu stigi. Ég var lengi að vinna mig út úr þessu öllu sam­an og það var í raun ekki fyrr en síðasta haust að ég var orðin eðli­leg á ný. Áfallið háir mér ekki leng­ur; ég kemst loks­ins aft­ur út úr húsi og er far­in að taka þátt í sam­fé­lag­inu. Er aft­ur lif­andi.“

Hjör­dís var í þrjár vik­ur á gjör­gæslu og lá sam­tals í sex mánuði á spít­ala. Smám sam­an hjarnaði lík­am­inn við. Hjör­dís lík­ir þessu við að vöðvarn­ir hafi verið frosn­ir og hún hafi hrein­lega þurft að finna þá á ný. Til að bæta gráu ofan á svart urðu nýrun um tíma óstarf­hæf og hún þurfti að fara í blóðskil­un. Sem bet­ur fer gekk það til baka. Þá þurfti hún í aðra aðgerð á vinstra fæti vorið 2012.

Hefði getað farið verr

„Þetta hefði getað farið verr; ég hefði getað misst fing­urna og jafn­vel nefið og það var alls ekki sjálf­gefið að nýrun færu að starfa á ný. Marg­ir sem veikj­ast svona al­var­lega hrein­lega deyja, þannig að ég er mjög þakk­lát fyr­ir að hafa kom­ist í gegn­um þessi veik­indi án meiri var­an­legs skaða. Eft­ir á að hyggja má segja að ég hafi verið hepp­in – en auðvitað leið mér ekki þannig meðan ég var að ná vopn­um mín­um á ný á spít­al­an­um. Það var ofboðslega erfiður tími.“

Lík­am­inn er eitt, sál­in annað, og Hjör­dís viður­kenn­ir að hafa gengið í gegn­um sterk­ar til­finn­ing­ar. Spurð hvort hún hafi verið lokuð mann­eskja fyr­ir áfallið svar­ar hún: „Já, frek­ar. Erum við það ekki öll, Íslend­ing­ar? Við erum ekki gef­in fyr­ir að tala mikið um til­finn­ing­ar okk­ar.“

Hún bros­ir.

„Auk þess að vera frek­ar lokuð að upp­lagi hef ég alltaf annað slagið þjáðst af kvíða og fé­lagsfælni. Ég segi ekki að það hafi verið stórt vanda­mál fyr­ir en þetta magnaðist allt upp eft­ir veik­ind­in. Svona mikið kraft­leysi kem­ur niður á manni, að ekki sé talað um óör­yggið sem fylg­ir því að geta ekki leng­ur stigið fram úr rúm­inu. Ég datt einu sinni inni á baði á spít­al­an­um og komst ekki upp aft­ur. Ég var ekki með bjöllu, eins og við rúmið, og það nægði til þess að ég fór í panik­ástand. Það var ekki fyrr en ég áttaði mig á því að ég gæti hringt úr farsím­an­um mín­um að ég gat greitt úr flækj­unni. Ég get brosað að þessu í dag en þetta var hræðileg til­finn­ing þegar það gerðist.“

Erfitt að treysta öðrum

Raun­ar leið henni löng­um stund­um eins og að hún væri föst í eig­in lík­ama og átti erfitt með að treysta sjálfri sér, eins og hún var orðin, og öðrum, sem þó voru all­ir af vilja gerðir til að hjálpa henni. „Ég var með mikla inni­lok­un­ar­kennd til að byrja með. Það lagaðist smám sam­an; því betri sem lík­am­inn varð, þeim mun bratt­ari varð hug­ur­inn.“

Eins góð og aðhlynn­ing­in var lík­am­lega var minna unnið með and­lega þátt­inn á spít­al­an­um. Hjör­dísi var boðin sál­fræðiaðstoð en fann fljótt að það virkaði ekki fyr­ir hana. Hins veg­ar talaði hún við Rósu Kristjáns­dótt­ur, djákna og hjúkr­un­ar­fræðing, og hafði mun meira gagn af þeim sam­töl­um. „Við Rósa töluðum sam­an reglu­lega í um tvö ár og það hjálpaði mér mjög mikið. Hún hjálpaði mér til dæm­is að tala við börn­in mín þegar fæt­urn­ir voru tekn­ir af mér. Dá­sam­leg kona, Rósa.“

Það var ekki bara Hjör­dís sjálf. Fjöl­skyld­an öll var í áfalli, börn­in Ástrós Helga, Ragn­heiður Ír og Mika­el Árni, sem voru ell­efu, sex og fjög­urra ára á þess­um tíma, for­eldr­ar henn­ar, Árni Stein­gríms­son og Stein­unn Sig­urðardótt­ir, systkin­in þrjú, Sig­urður Ragn­ar, Auður og Árni Hauk­ur, og aðrir aðstand­end­ur. „Ég fer á nokkr­um klukku­stund­um frá því að vera full­frísk yfir í að vera við dauðans dyr. Það seg­ir sig sjálft að það var mikið áfall fyr­ir mína nán­ustu. Og öf­ugt við mig fengu þau enga fag­lega aðstoð; enga áfalla­hjálp, þurftu bara að vinna úr þessu sjálf. Það gleym­ist stund­um hversu mikið áfall svona al­var­leg veik­indi eru fyr­ir nán­ustu aðstand­end­ur. Vissu­lega höfðu þau heimt mig úr helju en á sama tíma gerðu all­ir sér grein fyr­ir því að mik­il bar­átta væri fram und­an,“ seg­ir Hjör­dís.

Það var ekki fyrr en að Hjör­dís ræddi við fjöl­skylduráðgjafa að fjöl­skyld­an fékk aðstoð. „Ég þurfti með öðrum orðum að fara út fyr­ir kerfið, sem er um­hugs­un­ar­vert.“

Viðtalið í heild má lesa í Sunnu­dags­blaði Morg­un­blaðsins. 

Hjördís á spítalanum ásamt börnum sínum. Þau eru Ragnheiður Ír, …
Hjör­dís á spít­al­an­um ásamt börn­um sín­um. Þau eru Ragn­heiður Ír, Mika­el Árni og Ástrós Helga.
Drep kom í fætur Hjördísar eftir veikindin.
Drep kom í fæt­ur Hjör­dís­ar eft­ir veik­ind­in.
Hjördís stígur sandölduna á bretti í eyðimörkinni í Marokkó um …
Hjör­dís stíg­ur san­döld­una á bretti í eyðimörk­inni í Mar­okkó um síðustu ára­mót. Picasa
Þessi grein birt­ist
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Þessi grein birt­ist
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert