Varnargarður við Víkurklett austan við Vík í Mýrdal, vegna hugsanlegs Kötluhlaups, var á dagskrá ríkisstjórnarinnar í gær. Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra kynnti málið.
Tillögur að slíkum varnargarði eru byggðar á hermun jökulhlaups í Múlakvísl í kjölfar Kötlugoss. Ráðherrann vakti athygli á því að skýrsla um hermunina benti til þess að tiltölulega ódýr varnargarður gæti komið í veg fyrir stórfellt tjón í þéttbýli Víkur kæmi til Kötlugoss með jökulhlaupi niður Múlakvísl og vestur til Víkur. Málið er í höndum dómsmálaráðherra sem yfirmanns almannavarna í landinu, að því er fram kemur í umfjöllun um þessi áform í Morgunblaðinu í dag.
Í líkaninu var stillt upp varnargarði við Víkurklett austan við Vík og niður að sjávarkambinum við ströndina. Útreikningar sýndu að garður á þeim stað með krónu í sjö metra hæð yfir sjávarmáli myndi varna því að vatn rynni til Víkur. Samkvæmt upplýsingum frá dómsmálaráðuneytinu er heildarkostnaður við varnargarð við Víkurklett talinn geta orðið á bilinu 80-110 milljónir króna.