Tugir manna komu saman við Reykjavíkurtjörn í dag til að minnast Pawel Adamowicz, borgarstjóra Gdansk í Póllandi, sem lést á mánudag, eftir að hafa orðið fyrir hnífstunguárás á góðgerðarviðburði kvöldið áður en hann var stunginn í viðurvist hundraða vitna er hann flutti ávarp á samkomunni. Adamowicz var borinn til grafar í kirkju heilagrar Maríu í Gdansk í dag.
Fjöldi Pólverja er harmi sleginn vegna morðsins og efndu Samtök Pólverja á Íslandi til minningarstundar um Adamowicz í dag við Reykjavíkurtjörn.
„Það kom mér á óvart hversu margir komu,“ segir Alexander Witold Bogdanski, formaður Samtaka Pólverja á Íslandi. Kertum var raðar í snjóinn svo úr varð hjarta og í miðjuna var sett mynd af Adamowicz ásamt fleiri kertum.
Alexander þekkti Adamowicz persónulega og hafa síðustu dagar verið afar erfiðir. „Ég byrjaði á að flytja ræðu en þetta var svo persónulegt fyrir mig að ég gat ekki sagt mikið,“ segir Alexander. Sendiherra Póllands á Íslandi, Gerard Pokruszynski, tók þá við og þá flutti Dagur B. Eggertsson nokkur lokaorð sem Alexander þykir afar vænt um. Pawel Bartoszek, borgarfulltrúi Viðreisnar, þýddi ræðu Dags á pólsku.
„Þetta var falleg stund og við hugsuðum til borgarinnar okkar,“ segir Alexander, sem gekk í sama grunnskóla og Adamowicz í Gdansk.
Þó svo að mikil sorg ríki í Póllandi segir Alexander að ekki megi gleyma því að pólska þjóðin sé í dag klofin í pólitískri afstöðu sinni. Miðillinn Politico hefur meðal annars fjallað um lát Adamowicz og segja að morðið undirstriki þá pólitísku spennu sem ríki í Póllandi. „Það er okkar von að eitthvað breytist í Póllandi, þjóðin er klofin í dag en vonandi mun hann passa okkur frá himnum ofan,“ segir Alexander.