Björgunarsveitir á Hellu og Hvolsvelli voru kallaðar út á öðrum tímanum vegna tilkynningar um snjóflóð í Tindafjöllum. Þar var staddur um 20 manna hópur úr björgunarsveitinni Ársæli sem var í fjallamennskunámskeiði og lentu tveir björgunarsveitarmenn í flóðinu en hvorugur slasaðist.
Samkvæmt upplýsingum frá Vilhjálmi Halldórssyni, formanni Ársæls, var hópurinn á námskeiði þegar snjóflóðið féll. Þeir sem lentu í flóðinu náðust fljótt upp.
„Þetta fór mun betur en á horfðist,“ segir Vilhjálmur og bætir við að hárrétt viðbrögð hinna í hópnum hafi séð til þess.
Hægt var að snúa við björgunarsveitunum sem kallaðar höfðu verið út.