Erindi hefur borist til forsætisnefndar Alþingis þess efnis að vísa skuli máli Ágústs Ólafs Ágústssonar þingmanns Samfylkingarinnar til siðanefndar Alþingis, rétt eins og máli þingmannanna sex sem sátu að sumbli á barnum Klaustri í nóvember.
Forsætisnefnd hefur ekki tekið afstöðu til erindisins, en mun ræða málið á næsta fundi forsætisnefndar á þriðjudaginn í næstu viku.
Sá sem sendi erindið til forsætisnefndar óskar nafnleyndar og gæti það því verið hver sem er í samfélaginu, enda er öllum almenningi frjálst að senda inn erindi til forsætisnefndar.
Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata og 5. varaforseti Alþingis, staðfestir í samtali við mbl.is að á fundi forsætisnefndar fyrr í dag hafi erindi varðandi mál Ágústs Ólafs verið kynnt og að sendanda verði send staðfesting á móttöku þess.
Ágúst Ólafur greindi frá því á Facebook-síðu sinni 7. desember sl. að hann hefði fengið áminningu frá trúnaðarnefnd Samfylkingarinnar vegna framkomu sinnar í garð konu í byrjun síðasta sumars. Ágúst Ólafur áreitti hana kynferðislega og þegar hún hafnaði honum ítrekað fór hann særandi orðum um hana. Hann tók sér tveggja mánaða leyfi frá þingstörfum vegna málsins og er því enn í leyfi.
Skömmu áður en hann fór í leyfi hafði hann verið einn þeirra þingmanna sem óskuðu eftir því með erindi til forsætisnefndar Alþingis að máli þingmannanna, sem fóru ófögrum orðum um aðra þingmenn og fjölda fólks í samfélaginu á barnum Klaustri við Austurvöll, yrði vísað til siðanefndar.