Mikilvægt er að viðhalda árangrinum sem náðst hefur með þriggja ára meðferðarátaki heilbrigðisyfirvalda gegn lifrarbólgu C. Þetta sagði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra í ávarpi sínu á læknadögum sem nú standa yfir í Hörpu.
Telst verkefninu sem byggði á samstarfi heilbrigðisyfirvalda og lyfjafyrirtækisins Gilead um að útrýma lifrarbólgu C á Íslandi nú formlega lokið, en öllum sem smitaðir voru af lifrarbólgu C á tímabilinu var boðin lyfjameðferð og þáðu 95% meðferðina.
Fjallað var um verkefnið á málþingi í Hörpu, forvarnagildi þess og lærdóminn sem af því má draga. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur sett þjóðum heims það takmark að útrýma lifrarbólgu C sem meiri háttar heilbrigðisvá árið 2030 og kom fram á málþinginu að Ísland telst nú leiðandi meðal þeirra þjóða heims sem stefna að því að ná þessu markmiði.
„Til að ljúka rannsóknarþætti verkefnisins, þ.e. úrvinnslu gagna og kynningu á niðurstöðunum, hef ég ákveðið að veita Landspítalanum sérstakt framlag, samtals 23 milljónir króna,“ er haft eftir Svandísi við þetta tilefni í frétt sem birt er á vef Stjórnarráðsins.
Benti Svandís á að heilbrigðisráðuneytið styrki einnig forvarnaverkefnið Frú Ragnheiði sem Rauði krossinn rekur. „Fjármunir hafa verið veittir í því skyni að tryggja þeim sem sprauta sig með fíkniefnum greiðari aðgang að hreinum áhöldum og draga þannig úr smiti og síðast en ekki síst bind ég vonir við að á þessu ári verði unnt að opna svokallað neyslurými í borginni í kjölfar umfjöllunar Alþingis um lagabreytingu til að svo megi verða,“ sagði ráðherra í tölu sinni.
Lifrarbólga C er alvarlegur langvinnur bólgusjúkdómur í lifur sem leitt getur til skorpulifrar, lifrarbilunar og lifrarkrabbameins. Lifrarbólga C er ein algengasta orsök skorpulifrar á Vesturlöndum og algeng ástæða lifrarígræðslu. Talið er að í heiminum séu um 70 milljónir einstaklinga smitaðir.