Segir þingforseta svala hefndarþorsta

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður og formaður Miðflokksins, segir í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag, forseta Alþingis, Steingrím J. Sigfússon, ekki hafa áhuga á að rannsaka brot heldur eigi lög og réttur eiga að víkja í tilraunum forseta til að svala hefndarþorsta sínum.

„Forseti Alþingis reynir nú að efna til pólitískra réttarhalda í annað sinn. Í fyrra skiptið studdist hann við gildandi lög. Þá lýsti hann því með leikrænum tilburðum að eins sorglegt og það væri krefðist nauðsyn þess að hinn fallni forsætisráðherra yrði ákærður. Með því endurómaði hann, viljandi eða óviljandi, fræg orð Robespierre um örlög hins fallna konungs Frakklands. Eftir þversagnakennda ræðu um að almennar reglur ættu ekki við sagði byltingarofsamaðurinn (þ.e. Robespierre) að hann yrði með miklum harmi að tilkynna hver örlög konungs þyrftu að verða. Í því tilviki beið fallöxin. Á Íslandi sýndu lögin sem betur fer fram á að hinn íslenski byltingarforingi hefði reynt að koma fyrrverandi forsætisráðherra landsins í fangelsi að ósekju.

Nú telur hins vegar þingforsetinn að gildandi lög dugi ekki til. Skömmu fyrir jól sendi hann því frá sér fordæmalausa yfirlýsingu um að hann ætlaði að láta breyta lögum og beita svo hinum nýju lögum sínum afturvirkt til að ná fyrir fram ákveðinni niðurstöðu.

Að afnema eigið vanhæfi

Áformin kynnti þingforsetinn um leið og hann lýsti yfir eigin vanhæfi til að fjalla um málið sem um ræddi. Ætli sé ekki rétt að kalla málið „hlerunarmálið“ (það er óviðeigandi að kenna það við veitingastofuna þar sem glæpurinn fór fram enda ekki verið sýnt fram á að staðurinn tengist afbrotinu). Í umfjöllun sinni um málið hafði þingforsetinn gert sig vanhæfan og með viðbrögðum sínum dregið með sér aðra nefndarmenn forsætisnefndar.

Í tilkynningu þingforsetans kom fram að hann myndi láta breyta lögum á þann hátt að staðfest vanhæfi hans sjálfs og varaforseta Alþingis yrði afnumið með afturvirkri lagasetningu. Þannig gæti þingforsetinn áfram leitt mál sem hann hafði neyðst til að lýsa sig vanhæfan til að afgreiða og skilað þeirri niðurstöðu sem hann vildi. Með öðrum orðum, lærdómurinn af landsdómsmálinu var sá að nú þyrfti hann að gera sjálfan sig að dómara.

Markmiðið og annmarkar þess

Markmið þingforsetans var að koma málinu til svo kallaðrar siðanefndar til að geta að því búnu fellt dóm sinn. Siðanefndin er undirnefnd forsætisnefndar Alþingis og henni aðeins til ráðgjafar. Þingforsetinn hefur þegar verið upplýstur um að þar sem forsætisnefndin sé vanhæf sé siðanefndin það einnig. Markmiðið var því að vanhæf nefnd gæti beðið vanhæfa undirnefnd sína um álit,“ segir Sigmundur Davíð.

Þingmennirnir sex sem komu við sögu í Klausturmálinu. Efri röð …
Þingmennirnir sex sem komu við sögu í Klausturmálinu. Efri röð frá vinstri: Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Anna Kolbrún Árnadóttir, Bergþór Ólason og Gunnar Bragi Sveinsson, þingmenn Miðflokksins, auk Karls Gauta Hjaltasonar og Ólafs Ísleifssonar, fyrrverandi þingmanna Flokks fólksins. Samsett mynd

Hann segir að í okkar samfélagi teljist  það ekki til glæps að hugsa ljótar hugsanir, hugsanir sem menn iðrast jafnan, og ekki heldur að missa út úr sér slíkar hugsanir í einkasamtölum, hvort sem þær lýsa einlægri afstöðu eða eru sagðar í hálfkæringi, gríni, kaldhæðni eða til að ganga fram af öðrum.

„Almenningur er fullfær um að meta hvað er siðlegt og hvað ekki og þarf ekki pólitíska sérfræðinga til að segja sér það. Afstaða slíkrar nefndar, sem skipuð væri á pólitískum forsendum hefði því ekkert gildi og skipti engu máli.

Þarf þá að andmæla?

Ef afstaða siðanefndar skiptir ekki máli, því þá að andmæla málsmeðferðinni? Svarið er vonandi augljóst. Alþingi getur ekki leyft sér að misnota lög í pólitískum tilgangi. Það getur ekki sætt sig við að forsetinn láti þingið fara gegn lögum og rétti í þágu eigin hégóma og skapsmuna.

Eflaust er til fólk sem telur að Alþingi Íslendinga sé fyrst og fremst pólitískur vígvöllur þar sem allt sé leyfilegt. Slík viðhorf eru hættuleg lýðræðinu og mega aldrei ráða för. Hlutverk Alþingis er að setja lög sem öllum landsmönnum er ætlað að hlíta. Hvernig er hægt að ætlast til þess að almenningur og dómstólar beri virðingu fyrir lögunum ef þeir sem setja lögin líta hiklaust fram hjá þeim til að ná pólitískum markmiðum eða svala hefndarþorsta. Það er því ekki hægt að sætta sig við að þingið sjálft sýni lögum, rétti, sanngirni og heiðarleika fullkomna vanvirðingu.

Þetta er sérstaklega mikilvægt í ljósi þess sem gerðist eftir að fyrri áform þingforsetans um afturvirka lagasetningu, til að afnema eigið vanhæfi, runnu út í sandinn.

Það sem gerðist næst

Í jólaleyfi þingsins hefur einhver hugrakkur maður útskýrt fyrir þingforsetanum að áform hans séu óraunhæf, ólögmæt og ólýðræðisleg eða að minnsta kosti eitthvað af þessu þrennu.

Þingforsetinn hóf því nýja árið á nýrri fordæmalausri yfirlýsingu. Hann hygðist láta kjósa nokkurs konar auka forsætisnefnd sem hefði það eina hlutverk að afgreiða eitt tiltekið mál. Um leið lét hann þess getið hver niðurstaðan ætti að verða. Með því vísaði hann aftur í Robespierre, viljandi eða óviljandi.

Komið hefur fram að þingforsetinn hafi látið starfsmenn Alþingis rannsaka þingmennina 63 til að komast að því hverjir þeirra kunni að teljast hæfir til að leiða málið til lykta á þann hátt sem hann mælti fyrir um. Enn er margt á huldu um hvernig slíkt getur gerst en kannað var hvað þingmenn hefðu sagt í fjölmiðlum og hvað þeir hefðu aðhafst á samfélagsmiðlum. Markmiðið var að finna þingmenn sem gætu tekið að sér að framkvæma það sem hinn vanhæfi þingforseti tilkynnti opinberlega að þeir ættu að gera. – Finna það sem Ameríkumenn kalla „patsy“.

Það hlýtur að vekja áhyggjur að forseti Alþingis beiti starfsmönnum á þennan hátt enda er það hlutverk þeirra að gæta jafnræðis gagnvart öllum þingmönnum (og það hafa starfsmenn almennt gert einstaklega vel).

Niðurstaðan var sú að 3-6 þingmenn kæmu til greina og forsetinn hófst handa við að reyna að skikka þá í hlutverkið. Að minnsta kosti einn þeirra sagðist strax ekki ætla að láta leiða sig út í ógöngur forsetans og þá voru eftir tveir (eða fimm),“ segir í grein Sigmundar Davíðs.

Þingmaðurinn segir að þetta stangist á við lög um þingsköp á svo víðtækan hátt að hægt væri að skrifa heila grein bara um það.

„Með framferði sínu brýtur þingforsetinn blað í sögu Alþingis. Frá því að ég hóf þátttöku í stjórnmálum fyrir áratug hafa þingforsetar leitast við að vera forsetar allra þingmanna. Þeim hefur tekist misvel upp en alltaf hefur verið samstaða um að það ætti að vera markmiðið.

Margir höfðu efasemdir um að Steingrímur J. Sigfússon væri heppilegur til að gegna slíku hlutverki. Nú kýs hann að renna stoðum undir þær efasemdir með afgerandi og sögulegum hætti. Viðhorf Steingríms til mín er vel þekkt. Hann telur sig eiga harma að hefna og leitast nú við að nýta stöðu sína í þeim tilgangi. Þó blasir við að ekkert af því sem ég sagði í einkasamtali sem tekið var upp með ólögmætum hætti jafnast á við fjölmargt sem þingforsetinn sjálfur hefur sagt og gert opinberlega að yfirlögðu ráði.“

„Varla er það vilji þingsins að setja þau fordæmi sem þingforsetinn boðar með framgöngu sinni. Eigi einkasamtal nokkurra þingmanna erindi til siðanefndar hlýtur að þurfa að vísa ótal málum til nefndarinnar, þar með talið málum sem varða þingforsetann.

Það mætti til dæmis nefna fjölmörg dæmi um hluti sem aðrir þingmenn, þar með talið Steingrímur J. Sigfússon, hafa sagt um mig opinberlega sem eiga mun frekar erindi til siðanefndar en nokkuð sem ég sagði í hinum ólögmætu upptökum. Eigi svo pólitík að ráða för fremur en gildissvið siðareglnanna verður málafjöldinn endalaus. Í því sambandi er rétt að minnast þess að hver sem er getur lagt til að mál gangi til siðanefndar með því að senda erindi til forsætisnefndar þingsins.

Samræmið

Þingforsetinn naut sviðsljóssins þegar hann ákvað að biðjast afsökunar á tali sex þingmanna án þess að gera grein fyrir því á hverju hann væri að biðjast afsökunar hjá hverjum um sig. Betur hefði farið á að hann byrjaði á að biðjast afsökunar á því sem hann hafði sjálfur stöðu og tilefni til.

Þingforsetinn hefði getað byrjað á að biðjast afsökunar á orðfæri sínu undanfarna áratugi, á því að hafa lagt hendur á ráðherra í þingsal og reyna svo að koma sama manni í fangelsi með pólitískum réttarhöldum, á því að afhenda erlendum hrægammasjóðum íslensku bankana á sama tíma og þúsundir fjölskyldna misstu heimili sín, á því að hafa reynt að láta íslenskan almenning taka á sig skuldir fallinna einkabanka í andstöðu við lög, á því að nýta ekki þau tækifæri sem gáfust til að endurreisa íslenskt efnahagslíf en státa sig í staðinn af hrósi erlendra fjármálastofnana. Verði þingforsetinn kominn á skrið getur hann svo haldið áfram og beðist afsökunar á því sem hann hefur sagt og gert í gleðskap undanfarin ár, meðal annars sem ráðherra,“ segir Sigmundur Davíð í grein sinni en hana er hægt að lesa í heild á miðopnu Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert