Stórfelld fíkniefnasala á Facebook

Um þrjátíu lokaðir fíkniefnasöluhópar á Facebook fundust hér á landi …
Um þrjátíu lokaðir fíkniefnasöluhópar á Facebook fundust hér á landi í rannsókn fræðimanna á Norðurlöndunum. AFP

Stórfelld sala á fíkniefnum fer fram í íslenskum söluhópum á Facebook. Þetta kemur fram í samnorrænni rannsókn á fíkniefnasölu á netinu sem Helgi Gunnlaugsson, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands, hefur tekið þátt í. Fjallað er um rannsóknina á vef HÍ.

Rannsóknin var gerð að frumkvæði fræðimanna við Háskólann í Kaupmannahöfn og fólst í söfnun upplýsinga um hvernig fíkniefnasölu væri háttað á netinu á Norðurlöndum og hvert umfang fíkniefnasölunnar væri í hverju landi. 

Um þrjátíu lokaðir söluhópar fundust hér á landi en fjöldi félaga í hverjum hópi var allt frá tugum til þúsunda. Í hópunum mátti finna allar tegundir fíkniefna sem fást hér á landi auk stera sem buðust í nokkrum hópum.

Helgi Gunnlaugsson afbrotafræðingur.
Helgi Gunnlaugsson afbrotafræðingur. mbl.is/Árni Sæberg

Á vef HÍ er haft eftir Helga að þróun fíkniefnamarkaðarins sé í takt við tækniframfarir og netvæðingu samtímans. Hann segir nýjustu mælingar sýna að nær helmingur fólks á aldrinum 18 til 29 ára hafi notað fíkniefni. Alls konar fólk nýtir sér netið til að kaupa fíkniefni en yngri karlmenn voru mest áberandi.

„Sala á öllu er að færast yfir á netið. Ef þú ert farinn að kaupa fötin á netinu þá kaupirðu dópið á netinu líka,“ segir Helgi en auðvelt er að komast í Facebook-hóp ef áhugi er fyrir hendi. Hann segir rannsakendur fljótt hafa fengið aðgang að hópunum sem fundust hér á landi og gróskumikill fíkniefnamarkaður fullur af myndefni og auglýsingum hafi komið í ljós.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert