Aðalmeðferð í máli hjóna sem eru grunuð um gróf kynferðisbrot gegn dóttur sinni og stjúpdóttur hefst í Héraðsdómi Reykjaness 14. febrúar.
Gæsluvarðhald yfir hjónunum var á fimmtudaginn síðasta framlengt um fjórar vikur, eða til 14. febrúar, að sögn Kolbrúnar Benediktsdóttur varahéraðssaksóknara.
Lögmenn hjónanna ætluðu að leggja fram greinargerð við fyrirtöku í héraðsdómi í morgun en fengu frest til 1. febrúar.
Forsaga málsins er sú að stjúpdóttirin kom á lögreglustöðina á Suðurnesjum og lagði fram kæru á hendur manninum og móður sinni. Við yfirheyrslu í júlí í fyrra játaði fólkið að hafa framið brotin en í nóvember síðastliðnum kom svo fram að hjónin hefðu játað brot sín að hluta.
Konan sætti gæsluvarðhaldi en var síðan sleppt þar sem hlutur mannsins í brotinu var talinn meiri. Eftir að ákæra var gefin út í málinu 1. október í fyrra var konan aftur úrskurðuð í gæsluvarðhald. Kom þá fram að héraðssaksóknari teldi að ef konan hefði gerst sek um jafnalvarleg brot og henni væru gefin að sök ylli það hneykslun og særði réttarvitund almennings gengi hún laus.