Forsætisnefnd Alþingis hefur óskað eftir því við þingmenn Miðflokksins úr Klaustursmálinu að fá að gera bréfaskipti þeirra á milli opinber. Svör hafa ekki borist frá þingmönnunum.
Þetta segir Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis.
„Okkur barst ósk frá fjölmiðlum um hvort þau gætu fengið þessi bréf sem gengið hefðu á milli aðila. Við sögðumst fús til að afhenda þau en að við þyrftum samþykki gagnaðilans í málinu. Við óskuðum strax eftir því að fá svör við því en þau hafa ekki komið,“ segir Steingrímur. „Það væri öllum fyrir bestu að þessi bréfaskipti væru opinber og lægju fyrir.“
Að minnsta kosti tvö bréfanna eru frá forsætisnefnd Alþingis og líklega þrjú frá fjórmenningunum úr Miðflokknum, að sögn Steingríms. Bréfi sem þingmennirnir sendu forsætisnefnd 17. janúar var svarað í gær og telur Steingrímur að hugsanlega hafi verið búið að ganga frá bréfinu sem þingmennirnir sendu í dag áður en þeim barst svarið.
Í bréfinu sem þingmennirnir sendu í dag gagnrýndu þeir Steingrím harðlega og sögðu hann halda þeim í myrkrinu vegna málsins og að vinnubrögð forsætisnefndar væru „vísbending um óvild forseta í okkar garð“.
„Ég las þetta bréf og skoðaði það með ráðgjöfum. Það var einróma niðurstaða okkar að það breytti engu,“ segir hann og bætir við að Alþingi hafi talað mjög skýrt með atkvæðagreiðslu sinni fyrr í dag þegar tveir viðbótarvaraforsetar voru kosnir inn í forsætisnefnd Alþingis. Verkefni þeirra verður að fjalla um Klaustursmálið og koma því í viðeigandi farveg.