Gert er ráð fyrir því að gera færslu Ófeigskirkju skil í tengslum við friðlýsingu Gálgahrauns. Sumir telja að söguleg álfakirkja sé í grjótbjarginu sem var fyrir vikið fært úr götustæðinu við gerð Álftanesvegar árið 2015.
Fram kemur í skipulagslýsingu vegna fyrirhugaðrar vinnu við deiliskipulag í tengslum við friðlýsingu Gálgahrauns og Garðahrauns neðra að til standi að skapa aðgengi að bjarginu og setja upp fræðsluskilti á svokölluðu „Sáttatorgi“ um tilurð færslu þess úr götustæðinu.
DLD ehf. vinnur að deiliskipulagi Gálgahrauns og Garðahrauns neðra sem eru friðlýst svæði og hluti af fólkvangi, sem nær frá Búrfellsgjá í Heiðmörk að Gálgahrauni við Lambhúsatjörn í Skerjafirði. Garðabær hefur einnig sett af stað vinnu við deiliskipulag Garðahrauns efra.
Meginmarkmið deiliskipulags Gálgahrauns og Garðahrauns neðra er að vernda jarðminjar, gróðurfar og fuglalíf. Samhliða því á að stýra aðgengi um hraunið og veita fræðslu um náttúrufar og menningarminjar á svæðinu. Í deiliskipulaginu er einnig gert ráð fyrir að tengja saman göngu- og hjólaleið frá Álftanesi að meginleiðum í gegnum Sjálandshverfi í átt til Reykjavíkur, að því er kemur fram í skipulagslýsingunni.
„Markmiðið með friðlýsingu Gálgahrauns er að vernda nyrsta hluta Búrfellshrauns, þann hluta hraunsins sem runnið hefur í sjó fram, bæði vegna jarðmyndana og lífríkis. Markmið friðlýsingarinnar er jafnframt að varðveita Gálgahraun sem vettvang náttúruskoðunar og fræðslu um ókomna tíð,“ segir í friðlýsingu Gálgahrauns.