Mikil vinna hefur verið unnin í heilbrigðisráðuneytinu svo fjölga megi hjúkrunarrýmum og finna leiðir til að tryggja mönnum hjúkrunarfræðinga. Þetta kom fram í svörum Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra á Alþingi í dag við fyrirspurn Önnu Kolbrúnar Árnadóttur, þingmanns Miðflokksins, um alvarlega stöðu bráðamóttökunnar og skort á hjúkrunarrýmum.
Sagði Svandís 140 ný hjúkrunarrými bætast við á þessu ári. 40 Á Seltjarnarnesi og 99 á Sléttuvegi í Reykjavík. „Þegar úttekt embættis landlæknis var gerð voru um 120 einstaklingar sem biðu á Landspítala eftir hjúkrunarrými, þar af biðu 53 inni á deildum sem ætlaðar eru fyrir aðra starfsemi, þ.e. inni á bráðarýmum. Það er því ljóst að þessi 140 hjúkrunarrými munu bæði mæta þörfum þessara einstaklinga sem þarna bíða og annarra sem enn eru heima en eru í þörf fyrir dvöl í hjúkrunarrými,“ sagði ráðherra.
Þessu til viðbótar sé unnið að framgangi frekari hugmynda til að fjölga hjúkrunarrýmum. Sagði Svandís þá fjölgun verða jafnvel enn hraðari, en m.a. sé verið að skoða tímabundna notkun gamla Sólvangs, auk þess sem unnið sé að áframhaldandi uppbyggingu hjúkrunarrýma samkvæmt framkvæmdaáætlun sem kynnt var á síðasta ári.
Sjúkrahótelið sem opna á í apríl muni einnig bæta möguleikana á að veita enn betri þjónustu þeim sem þurfa á þjónustu Landspítala að halda.
Þá sagði Svandís eflingu heimahjúkrunar einnig mikilvæga, en 130 milljónum hafi verið veitt til að bæta þar úr. „Það er mikilvægt að halda því áfram en skýrsla KPMG frá 2018 sýnir að Ísland ver minna fjármagni í heimahjúkrun en nágrannalöndin. Áhrifin af þessum aðgerðum munu leiða til þess að réttindi sjúklinga verði betur tryggð á bráðamóttöku Landspítala og spítalans í heild.“
Mönnun fagfólks sé þó forsenda þess að hægt sé að veita góða og örugga heilbrigðisþjónustu og kvaðst ráðherra þegar hafa lagt fram tillögur um aðgerðir fyrir ráðherranefnd um samræmingu mála. „Það eru aðgerðir sem kalla á samvinnu milli ráðuneyta og sú vinna er í gangi og eru væntingar bundnar við árangur hennar,“ sagði Svandís.