Sveitarstjórn Reykhólahrepps samþykkti á aukafundi sínum í dag að halda áfram með aðalskipulagsbreytingar þar sem gert er ráð fyrir Teigsskógarleið, leið Þ-H, með þremur atkvæðum gegn tveimur.
Þrjár tillögur um málefnið voru lagðar fram á fundinum, sú fyrsta um frestun ákvörðunar og íbúakosningu. Hana lagði fram Ingimar Ingimarsson, oddviti Reykhólahrepps, og var hún felld með þremur atkvæðum. Einn sveitarstjórnarmanna sat hjá.
Árný Huld Haraldsdóttir lagði fram tillöguna um Teigsskógarleið og var hún sem fyrr sagði samþykkt með þremur atkvæðum gegn tveimur. Þar með þurfti ekki að taka afstöðu til þriðju tillögunnar um Reykhólaleið, leið R.
Sveitarstjórnarmenn funduðu á dögunum með Sigurði Inga Jóhannssyni, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, að frumkvæði hans þar sem þeir lýstu helstu sjónarmiðum í málinu. Sigurð Inga hittu einnig fulltrúar sveitarfélaganna Vesturbyggðar og Tálknafjarðarhrepps. Sveitarfélög á Vestfjörðum höfðu áður lagst gegn áformum Reykhólahrepps um að velja Reykhólaleið.
Þá funduðu sveitarstjórnarmenn Reykhólahrepps með Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra um málið á dögunum og lýstu m.a. áhrifum þess á náttúruperlur sveitarfélagsins ef Teigsskógarleiðin yrði farin.
Uppfært kl. 16:46
Í upphaflegri útgáfu fréttarinnar kom fram að tillaga um Reykhólaleið, leið R, hefði verið felld á aukafundi sveitarstjórnar í dag. Hið rétta er að ekki kom til atkvæðagreiðslu um tillöguna þar sem tillaga um leið Þ-H hafði verið samþykkt.