Meirihlutinn vill að hætt verði við kísilverið

Kísilverksmiðja United Silicon í Helguvík. Meirihluti bæjarfulltrúa í Reykjanesbæ vill …
Kísilverksmiðja United Silicon í Helguvík. Meirihluti bæjarfulltrúa í Reykjanesbæ vill að fallið verði frá áformum um uppbyggingu og rekstur kísilmálmverksmiðja í Helguvík.

Arion banki og Thorsil eru í yfirlýsingu frá meirihluta bæjarfulltrúa í Reykjanesbæ hvött til að falla frá öllum áformum um uppbyggingu og rekstur kísilmálmverksmiðja í Helguvík. Frá þessu er greint í frétt á vef Víkurfrétta. Hvetja bæjarfulltrúarnir fyrirtækin þess í stað til að taka frekar þátt í  annarri atvinnuuppbyggingu í sátt við fólkið í sveitarfélaginu og umhverfið.

Yfirlýsingin er sögð hafa verið samþykkt á bæjarstjórnarfundi í Reykjanesbæ á þriðjudagskvöld.

Í yfirlýsingu meirihlutans segir að ljóst sé að íbúar Reykjanesbæjar hafa af þessu verulegar áhyggjur í ljósi fyrri reynslu af slíkum rekstri. Starfsemi af þessu tagi henti alls ekki í nálægð við þétta íbúabyggð og því skori þeir á Arion banka og Thorsil að falla frá öllum áformum um uppbyggingu og rekstur kísilmálmverksmiðja í Helguvík og hvetji þá þess í stað „til að taka frekar þátt í  annarri atvinnuuppbyggingu í sátt við fólkið í sveitarfélaginu og umhverfið“.

Undir yfirlýsinguna rita allir bæjarfulltrúar meirihlutans, auk bæjarfulltrúa Miðflokksins.

Í bókun D-listans um málið segir að enginn afsláttur verði gefinn af umhverfiskröfum og eftirliti með uppbyggingu og atvinnustarfsemi í Helguvík. Bæjarfulltrúar D-listans skori því á fyrirtækin tvö að eiga ríkara samráð við íbúa um framvindu mála „og tryggja að unnið verði að uppbyggingu í Helguvík sem er í sátt við íbúa og umhverfi Reykjanesbæjar“. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka