Hollvinasamtök Elliðaárdals ætla að knýja fram íbúakosningu vegna breytinga á deiliskipulagi fyrir þróunarsvæðið Stekkjarbakki Þ73.
Borgarráð samþykkti nýlega með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og VG gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins að auglýsa tillögu fyrir húsnæðisuppbyggingu á svæðinu.
„Þetta er bara kornið sem fyllti mælinn. Það er búið að tala um að búa til borgardal í dalnum og friða hann og aldrei neitt gert. Við erum orðin þreytt á því að það er ekki hægt að tala um afmörkun dalsins. Dalurinn hefur ekki ennþá verið afmarkaður,“ segir Halldór Páll Gíslason, formaður Hollvinasamtakanna, í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.