Aðalmeðferð hefst í dag fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í máli þriggja manna, sem ákærðir eru af héraðssóknara fyrir innherjasvik og hlutdeild í innherjasvikum, sem tengjast viðskiptum með hlutabréf í Icelandair Group hf.
Mennirnir þrír, Kjartan Jónsson, Kristján Georg Jósteinsson og Kjartan Bergur Jónsson, eru ákærðir vegna viðskipta sem þeir tveir síðastnefndu áttu með afleiður, í flestum tilfellum kaup- eða sölurétti í félaginu, en Kjartan er fyrrverandi forstöðumaður leiðastjórnunarkerfis Icelandair.
Kjartan og Kristján Georg eru ákærðir fyrir innherjasvik en Kjartan Bergur fyrir hlutdeild í innherjasvikum. Viðskiptin sem ákært er fyrir áttu sér stað í október og nóvember 2015, júlí 2016 og janúar og febrúar 2017. Allir hafa þeir neitað sök.
Kjartan var lykilstarfsmaður flugfélagsins og sem slíkur skráður fruminnherji hjá Icelandair Group hf. Hann er sakaður um að hafa veitt Kristjáni Georg innherjaupplýsingar sem sem líklegar voru til að hafa marktæk áhrif á hlutabréfaverð Icelandair Group hf., ýmist jákvæð eða neikvæð eftir atvikum.
Kristján Georg er sakaður um að hafa nýtt sér þessar upplýsingar til þess að stunda viðskipti í nafni félagsins VIP Travel ehf., sem nú heitir Fastrek ehf. Kjartan og Kristján Georg eru ákærðir í þremur liðum og í ákæru segir að það þyki ljóst að þeir félagar hafi sammælst um að skipta með sér áhættu og hagnaðarvon í þessum viðskiptum.
Kristjáni Georg er svo einnig gefið að sök að hafa deilt þessum innherjaupplýsingum sem hann fékk hjá Kjartani með Kjartani Bergi vini sínum. Hann mun hafa sent honum mynd af valréttarsamningi sem hann gerði fyrir hönd VIP Travel ehf., en í ákæru málsins segir að Kjartan Bergur hafi framvísað rafrænu myndinni í banka og óskað eftir „nákvæmlega eins samningi fyrir sig“.
Mennirnir eru allir á fimmtudagsaldri, en þeir Kjartan og Kjartan Bergur þekkjast einungis lítillega í gegnum sinn sameiginlega vin, Kristján Georg, samkvæmt ákæru málsins.