„Við vitum af tugum hjóna þar sem heilbrigður maki veikist vegna álags við umönnun á veikum maka. Fólk segir ekki frá þar sem um viðkvæm persónuleg mál er að ræða. Landssamband eldri borgara hefur miklar áhyggjur af þessari þróun,“ segir Þórunn H. Sveinbjörnsdóttir, formaður landssambandsins.
Hún tekur undir það sem Pálmi V. Jónsson öldrunarlæknir hefur sagt um skort á samfellu í úrræðum fyrir eldri borgara. Dæmið um hjónin í Hafnarfirði, sem aðskilin eru vegna hvíldarinnlagnar eiginkonunnar á Húsavík á meðan eiginmaðurinn bíður heima í Hafnarfirði, sé með þeim verstu en alls ekki eina dæmið um aðskilnað hjóna.
Pálmi V. Jónsson, yfirlæknir öldrunarmála á Landspítala og formaður færni- og heilsumatsnefndar höfuðborgarsvæðisins, segir það ekki alls kostar rétta fullyrðingu sem fram kom í Morgunblaðinu í gær að einstaklingar með heilabilunarsjúkdóma, sem ekki nýta sér alla þjónustu sem í boði er, komist ekki á forgangslista fyrir hvíldarinnlögn, að því er fram kemur í blaðinu í dag.