Fyrir helgi var tekin ákvörðun um það af hálfu Orkustofnunar að samþykkja kerfisáætlun Landsnets fyrir tímabilið 2018-2027. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Orkustofnun en með breytingu á raforkulögum á árinu 2015 fékk stofnunin það hlutverk að sjá um eftirlit með uppbyggingu flutningskerfisins í gegnum kerfisáætlun Landsnets.
„Samkvæmt raforkulögum hefur Orkustofnun það hlutverk að fara yfir og meta kerfisáætlun Landsnets með hliðsjón af markmiðum raforkulaga um öryggi, skilvirkni, áreiðanleika afhendingar, hagkvæmni, gæði raforku og stefnu stjórnvalda um lagningu raflína,“ segir enn fremur.
Landsnet þarf að leggja fram árlega kerfisáætlun sem felur í sér tvo meginþætti. Annars vegar langtímaáætlun, sem sýnir þá hluta í meginflutningskerfinu sem fyrirhugað er að byggja upp eða uppfæra á næstu tíu árum, og hins vegar framkvæmdaáætlun, sem sýnir áætlaðar fjárfestingar í flutningskerfinu sem Landnet hyggst ráðast í á næstu þremur árum.
Fram kemur að Orkustofnun hafi nú yfirfarið kerfisáætlun Landsnets eftir að hafa áður gert athugasemdir við hana. Breytt áætlun uppfylli að mati stofnunarinnar skilyrði raforkulaga og reglugerðar um kerfisáætlun fyrir uppbyggingu flutningskerfis raforku.