Vilja fjögurra þrepa skattkerfi

Drífa Snædal, forseti ASÍ. Miðstjórn sambandsins samþykkti í dag tillögur …
Drífa Snædal, forseti ASÍ. Miðstjórn sambandsins samþykkti í dag tillögur efnahags-, skatta- og atvinnumálanefndar ASÍ um róttækar breytingar á skattkerfinu. mbl.is/Valli

Miðstjórn ASÍ samþykkti á fundi sínum í dag tillögur efnahags-, skatta- og atvinnumálanefndar sambandsins um breytingar á skattkerfinu sem auka jöfnuð og ráðstöfunartekjur meginþorra launafólks.

„Markmið breytinganna er að létta byrðum af fólki með lágar og millitekjur, auka jafnrétti og koma á sanngjarnri skattheimtu,“ segir í tilkynningu frá ASÍ.

Það kemur einnig fram að rannsókn hagdeildar ASÍ frá 2017 sýni að skattbyrði hinna tekjulægstu hefur hækkað mest á undanförnum árum og dregið hefur úr jöfnunarhlutverki skattkerfisins. „Munar þar mestu að skattleysismörk hafa ekki fylgt launaþróun og vaxta- og barn[a]bótakerfin hafa markvisst verið veikt og eru nú í skötulíki miðað við það sem áður var,“ segir í tilkynningu.

Þá segir einnig að húsnæðisstuðningur hins opinbera hafi rýrnað á sama tíma fasteigna- og leiguverð hefur rokið upp. Á síðustu árum hefur barnafjölskyldum sem fá stuðning í gegnum barnabótakerfið fækkað mikið og bæturnar sem hlutfall af launum lækkað verulega. Það er mat ASÍ að stuðningskerfin nýtast nú aðeins fámennum hópi mjög tekjulágra einstaklinga. „Þau eru ekki lengur það tekjujöfnunartæki sem lagt var upp með vegna vaxandi tekjuskerðinga,“ segir í tilkynningu.

Fjórða þrepið verði hátekjuþrep

Hugmyndirnar felast í því að skattkerfið verði þrepaskipt með fjórum skattþrepum þar sem fjórða þrepið verði hátekjuþrep. Þá er lagt til að skattleysismörk hækki og fylgi launaþróun. Einnig er lagt til að breytingin auki ráðstöfunartekjur mest hjá þeim sem hafa laun undir 500.000 kr. á mánuði

Hvað varðar húsnæðisstuðning leggur ASÍ til að húsnæðisstuðningskerfin verði endurreist og koma þurfi í veg fyrir að sveiflur á markaði hafi áhrif á stuðninginn og þar með afkomu launafólks  

Breytingarnar snúa einnig að barnabótum en þar er lagt til að barnabætur nái til þorra barnafjölskyldna, dregið verði verulega úr tekjuskerðingum og að tekjuskerðingarmörk hækki og fylgi launaþróun.

Til að mæta tillögunum leggur ASÍ til að hið opinbera horfi til nokkurra mögulegra tekjuöflunarleiða, svo sem hækkunar fjármagnstekjuskatts sem eykur samræmi í skattlagningu launa og fjármagns, upptöku auðlegðarskatts og aukins skattaeftirlits.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka