Fleiri greinast með HIV og lekanda

mbl.is/Eggert

Þróun kynsjúkdóma á Íslandi er óheillavænleg að því er fram kemur í nýútkomnu fréttabréfi embættis landlæknis, sem fjallar um atburði á síðasta ársfjórðungi ársins 2018. Þar koma fram tölur sem sýna fram á fjölgun lekandatilfella og HIV-sýkinga, en færri greindust með sárasótt og klamydíu heldur en á árunum áður.

Fleiri hafa greinst með HIV-sýkingu á árinu 2018 heldur en á síðustu fjórum árum, en af þeim 39 sem greindust voru 30 manns af erlendu bergi brotnir. Af þeim sem smituðust á árinu smituðust 17 vegna kynmaka gagnkynhneigðra, 14 vegna kynmaka samkynhneigðra og tveir vegna neyslu fíkniefna í æð. Í einu tilfelli var um að ræða smit frá móður til barns á erlendri grundu. Fimm af þessum 39 eru taldir hafa smitast á Íslandi.

Færri greinast með klamydíu

Greiningum á algengasta kynsjúkdómnum, klamydíu, fækkaði umtalsvert árið 2018, miðað við árin á undan, en tilkynnt voru 1.634 tilfelli. Til samanburðar greindust 2.197 manns með sjúkdóminn árið 2017, en það þýðir að tilfellunum hafi fækkað um 26% á milli ára.

Konur voru í meirihluta meðal þeirra sem greindust með klamydíu, um 54%, en sjúkdómurinn skilur sig frá öðrum kynsjúkdómum hvað varðar kynjahlutfall og tíðni.

HIV-sýkingum fjölgaði árið 2018.
HIV-sýkingum fjölgaði árið 2018. Ljósmynd/Embætti landlæknis

Fjölgun lekandatilfella hélt áfram á árinu 2018 en sá faraldur var innlendur í 80% tilvika. Erlendis eru lekandabakteríur sem eru fjölónæmar fyrir sýklalyfjum vaxandi vandamál og segir í fréttabréfi embættis landlæknis að það sé því væntanlega tímaspursmál hvenær þær verða það á Íslandi. Mikill meirihluti þeirra sem greindust með lekanda árið 2018 eru karlmenn, eða um 84%.

Ljósmynd/Embætti landlæknis

Þá dró úr fjölda þeirra sem greindust með sárasótt á árinu og voru karlar flestir þeirra sem greindust. Faraldurinn hefur fyrst og fremst tengst körlum en ljóst er að hann er einnig að ná til kvenna. 60% greindra voru karlar árið 2018, hlutfallið var yfir 90% árið 2015, til samanburðar.

Ljósmynd/Embætti landlæknis

Skráningum inflúensulíkra einkenna og inflúensu fjölgar

Í byrjun desember fór hin árlega inflúensa hægt af stað en tilfellunum hefur fjölgað með svipuðum hætti og undanfarin ár. Lítið hefur verið um inflúensu B en bæði inflúensu A(H1N1) og inflúensu A(H3N2) stofnar hafa verið á kreiki.

Árstíðarbundni inflúensufaraldurinn einkenndist í byrjun ársins 2018 af inflúensu A/H3N2) en fljótlega eftir það einkenndist faraldurinn af inflúensu B af Yamagata-stofni, þar til faraldurinn var að mestu leyti yfirgenginn í apríl 2018. Inflúensan kom aftur upp í október 2018 en flest fyrstu tilfellanna voru tengd hópsýkingu á Selfossi, sem var inflúensa A(H3N2) stofn.

Ljósmynd/Embætti landlæknis
Ljósmynd/Embætti landlæknis
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert