Orkusalan, dótturfélag RARIK, vinnur að rannsóknum vegna áforma um Tungudalsvirkjun í Fljótum í Skagafirði en Orkustofnun (OS) gaf út rannsóknarleyfi á síðasta ári. Áformin hafa mætt andstöðu meðal Fljótamanna, sem minnast þess þegar nánast heilli sveit í Stífludal var sökkt vegna Skeiðsfossvirkjunar fyrir rúmum 70 árum. Til varð miðlunarlón sem fékk heitið Stífluvatn. Óttast heimamenn að unnin verði óafturkræf spjöll á náttúrunni.
Tungudalur liggur að Stífluvatni og hyggst Orkusalan kanna fýsileika þess að virkja Tungudalsá. Efst í þeim dal er Tungudalsvatn og fallhæðin þaðan niður í Stífluvatn er um 280 metrar. Gerir Orkusalan ráð fyrir miðlunarstíflu við útfall Tungudalsvatns og niðurgrafinni þrýstipípu að stöðvarhúsi nærri bæjarstæði Tungu, en þar eru nú sumarhús. Áætluð stærð Tungudalsvirkjunar yrði 1-2 MW og reiknað er með tengingu að Skeiðsfossvirkjun með jarðstreng.
Orkusalan fékk rannsóknarleyfi til fjögurra ára, en að sögn Magnúsar Kristjánssonar, framkvæmdastjóra fyrirtækisins, eru mælingar þegar hafnar. Ekki liggur fyrir hvenær rannsóknum muni ljúka en Magnús segir kynningarfund fyrirhugaðan í Fljótum á næstunni, þar sem greina á íbúum svæðisins nánar frá áformum fyrirtækisins.
Samkvæmt umsókn Orkusölunnar til OS er ætlunin að ráðast í landmælingar, jarðfræðiathuganir, rennslismælingar og umhverfisathuganir. Skoða á gróðurfar, lífríki Tungudalsár og Tungudalsvatns, fugla, smádýr og fornleifar, að því er fram kemur í fréttaskýringu um þessi áform í Morgunblaðinu í dag.