Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur óskað eftir því að forsætisnefnd Alþingis taki til skoðunar hvort Björn Leví Gunnarsson og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmenn Pírata, hafi gerst brotleg við siðareglur fyrir alþingismenn með ummælum sínum opinberlega um endurgreiðslu þingsins á aksturskostnaði til Ásmundar.
Í bréfi sem Ásmundur sendi forsætisnefnd segir hann ummæli þeirra beggja „bæði grófar aðdróttanir og fullyrðingar um refsiverða háttsemi mína“. Telur hann nauðsynlegt að fá úr því skorið hvort ummælin samrýmist siðareglum.
„Þekkt er í pólitískri baráttu að þingmenn láti miður falleg orð um andstæðinginn falla í umræðu og jafnvel mjög niðrandi. Hér er hins vegar um miklu alvarlegri hluti að ræða þar sem ég er sakaður um hegningarlagabrot. Gengið er svo langt í sumum ummælum að fullyrt er að ég hafi framið slík brot. Tel ég að með þessum ummælum sé vegið alvarlega að æru minni,“ skrifar hann í bréfinu.
Mbl.is hafði spurnir af samskiptum Ásmundar við forsætisnefnd vegna málsins. Þegar haft var samband við þingmanninn og hann spurður út í það sagði hann það mjög miður að erindið skuli hafa lekið út úr forsætisnefnd. Hann kvaðst vona að það hafi engin áhrif á málsmeðferðina en hann sagðist ekki hafa ætlað að ræða málið opinberlega fyrr en niðurstaða lægi fyrir. „Það er mjög alvarlegt að forsætisnefnd þingsins sé ekki treyst fyrir erindum sem á hennar borð koma því í fyllingu tímans verða þau öll opinber. Ég er mjög sorgmæddur yfir því,“ sagði hann.
Bréf Ásmundar til forsætisnefndar Alþingis:
„Ég undirritaður, Ásmundur Friðriksson, alþingismaður, óska eftir því að forsætisnefnd taki til skoðunar hvort þingmennirnir, Björn Leví Gunnarsson og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir hafi með neðangreindum ummælum sínum á opinberum vettvangi um endurgreiðslu þingsins á aksturskostnaði til mín, brotið í bága við a og c lið 5. gr. og 7. gr, siðreglna fyrir alþingismenn. Jafnframt hvort forsætisnefnd telji þörf á að vísa erindi þessu til siðanefndar samkvæmt 15. gr. siðareglna fyrir alþingismenn. Mun ég rekja hér að neðan ummæli þeirra og er skáletrað það sem ég tel nauðsynlegt að forsætisnefnd meti hvort varðað getur við áðurnefnd ákvæði siðareglnanna.
Í umræðuþættinum Silfrinu þann 25. febrúar sl. sagði Þórhildur Sunna Ævarsdóttir:
„Við sjáum það að ráðherrar þjóðarinnar eru aldrei látnir sæta afleiðingum, þingmenn þjóðarinnar eru aldrei látnir sæta afleiðingum. Nú er uppi rökstuddur grunur um það að Ásmundur Friðriksson hafi dregið að sér fé, almannafé og við eru[m] ekki að sjá viðbrögð þess efnis að það sé verið að setja á fót rannsókn á þessum efnum.“
Á Facebook síðu sinni skrifaði Þórhildur Sunna þann sama dag eftirfarandi:
„Almenn hegningarlög innihalda heilan kafla um brot opinberra starfsmanna í starfi, þessi lög ná eftir atvikum líka yfir þingmenn og ráðherra, að ógleymdum lögum um ráðherraábyrgð. Almenningur í landinu á það skilið að ríkissaksóknari taki það föstum tökum þegar uppi er grunur um brot æðstu ráðamanna í starfi.
Tökum nokkur dæmi. Í 248. gr. almennra hegningarlaga er[u] fjársvik refsiver[ð]:
Sé brotið framið af opinberum starfsmanni kemur það til refsiaukningar sbr. 138. grein sönu [sic] laga.
Það er því fullkomlega eðlilegt að skoða grunsamlegt akstursbókhald Ásmundar Friðrikssonar í þessu ljósi, það er fullkomlega eðlilegt í réttarríki að hann sæti rannsókn vegna þessa, rétt eins og hver annar sem uppvís verður að vafasamri fjársöfnun úr vösum skattgreiðenda. Það er í verkahring saksóknara að rannsaka það. Almenningur ber ekki sönnunarbyrðina hér.“
Björn Leví skrifaði á Facebook síðu sína þann 29. okt sl.:
„Þann 10. okt sl. sagði Ásmundur Friðriksson: "[Píratar] er fólkið sem stendur upp í þessum sal trekk í trekk, ber upp á mann lygar, hefur sagt að ég væri þjófur, hafi stolið peningum af þinginu — og þau þurfa ekki að standa neinum reikningsskil."
Þetta er ekki satt. Vissulega hefur verið talað um að rangar skráningar í akstursdagbók geti talist fjársvik (https://www.frettabladid.is/frettir/fjarsvik-segir-serfraeingur) en enginn þingmaður Pírata hefur ásakað Ásmund um slíkt ... fyrr en núna.“
Björn Leví skrifaði á Facebook síðu sína þann 9. nóvember sl.:
„Ég skil vel að Ásmundur sé þreyttur. Það tekur á að keyra svona mikið. Það hjálpar hins vegar ekkert að ljúga upp á forseta og skrifstofu þingsins.“
Björn Leví skrifaði á Facebook síðu sína þann 12. nóvember sl.:
„Fyrst ég er að því, hvað er að því að saka menn um þjófnað þegar það liggja fyrir mjög góð gögn um nákvæmlega það sbr. ummæli um bílaleigubíl, ÍNN þátt og kosningabaráttu ... svo fátt eitt sé nefnt. Við skulum hafa það á hreinu að erindi mitt varðar _alla_ þingmenn sem hafa fengið endurgreiðslu vegna aksturskostnaðar. Vegna þess að skrifstofa þingsins hefur gefið út að endurgreiðslubeiðnir hafa ekki verið skoðaðar að fullu. Forseti á að sjá til þess að þessum reglum sé fylgt og forsætisnefnd á að hafa eftirlit með því.
Hvað ásökunina varðar. Ég get ekki sent inn erindi þar sem ég óska eftir rannsókn án þess að í því felist ásökun. Ég er ekki að segja að hann sé þjófur. Ég er að ásaka hann um þjófnað. Tvennt ólíkt.“
Björn Leví skrifaði á Facebook síðu sína þann 26. nóvember sl.:
„Rétt og heiðarlega fram ... eftirá.
Hversu heppilegt er að "innleiðingu" reglna um notkun bílaleigubíla lauk einmitt þegar Ásmundur var kominn á bílaleigubíl ... eftir að það var búið að vekja athygli á brotinu?“
Í framangreindum ummælum Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur og Björns Leví Gunnarsson eru bæði grófar aðdróttanir og fullyrðingar um refsiverða háttsemi mína. Tel ég nauðsynlegt að fá úr því skorið hvort slík ummæli á opinberum vettvangi samrýmist siðareglum fyrir alþingismenn. Þekkt er í pólitískri baráttu að þingmenn láti miður falleg orð um andstæðinginn falla í umræðu og jafnvel mjög niðrandi. Hér er hins vegar um miklu alvarlegri hluti að ræða þar sem ég er sakaður um hegningarlagabrot. Gengið er svo langt í sumum ummælum að fullyrt er að ég hafi framið slík brot. Tel ég að með þessum ummælum sé vegið alvarlega að æru minni.“