Yfirvöld í Bandaríkjunum hafa boðið einstaklingi sem er búsettur á Íslandi friðhelgi frá saksókn í skiptum fyrir að bera vitni gegn Julian Assange, stofnanda uppljóstrunarsíðunnar Wikileaks.
Kristinn Hrafnsson, ritstjóri Wikileaks, staðfestir þetta í samtali við Fréttablaðið.
Vegna lokunar bandarískra alríkisstofnana segist upplýsingafulltrúi bandaríska sendiráðsins á Íslandi ekki geta tjáð sig um málið.
„Ég get staðfest frá fyrstu hendi að þetta hefur verið gert. Það hefur enginn sett sig í samband við mig með þessum hætti. Ég er þó sjálfur til rannsóknar í þessu máli og ég veit til þess að gögn hafa verið sótt í einkafyrirtæki með leynd,“ segir Kristinn í samtali við Fréttablaðið.
Assange hefur búið í sendiráði Ekvador í London frá árinu 2012 af ótta við að vera framseldur til Bandaríkjanna eftir að hafa verið sakaður um kynferðisofbeldi í Svíþjóð.