Stína er ein af þessum konum sem manni finnst geta staðið undir heitinu kvenskörungur. Með eldrautt sítt hár og bros á vör opnar hún dyrnar og býður blaðamanni inn í hlýjuna. Lífið hefur ekki farið mjúkum höndum um hana en hún gefst ekki upp þótt móti blási. Eftir lát eiginmannsins Kidda hefur Stína gengið í gegnum erfiða sorgartíma. Með góðri hjálp og dugnaði er hún komin út úr mesta svartnættinu. Nú reynir Stína að lifa lífinu eins og Kiddi hennar hefði viljað, að hafa gaman af lífinu og nýta hverja stund því enginn veit hvenær kallið kemur.
Sjötti apríl 2006 líður Stínu seint úr minni en þann dag greindist Kiddi fyrst með æxli í heila, þá 24 ára gamall. Stína var þá 21 árs og áttu þau eitt ungt barn, frumburðinn Ísak Þór.
„Þetta var góðkynja heilaæxli og við tók aðgerð þar sem tekið var sýni og svo átti bara að bíða og sjá til. En ári síðar hafði æxlið stækkað og hann fór í aðra aðgerð og þá kom í ljós að þetta var orðið að krabbameini. Þá fór hann í þrjátíu skipti í geisla og svo í átta mánaða lyfjameðferð. Árið 2009 fengum við svo að vita að æxlið væri horfið. Læknarnir skildu það ekki því þeir höfðu ekki haldið að Kiddi fengi langan tíma.“
Stína segir Kidda alltaf hafa verið jákvæðan og lífsglaðan, sama hvað á dundi.
„Þegar ég horfi til baka finnst mér eins og hann hafi vitað að hann myndi ekki lifa lengi. Hann ætlaði að nýta allt úr þessu lífi. Þegar hann greindist fyrst kom hann upp í vinnu til mín á miðjum degi og sagði: „Æ, þetta er kannski dálítið ljótt orð en ég er kominn með heilaæxli.“
Ég fékk auðvitað sjokk en hann sagði mér að slaka á. Sem betur fer ákváðum við að gúggla ekki heilaæxli heldur hlusta bara á það sem læknirinn segði. Annars hefði ég komist að því að þessi tegund myndi koma aftur. Við áttum alveg góða tíma frá 2009 til 2014 en þá var mig farið að gruna að það væri eitthvað í gangi,“ segir Stína.
„En þarna á milli geisla- og lyfjameðferðarinnar árið 2007 vildi Kiddi vita hvað hann myndi lifa lengi og læknirinn sagði í mesta lagi fimm ár. Flestir hefðu sagt, guð minn góður, ég hef bara fimm ár, en hann svaraði þá, „frábært, geggjað, ég hef fimm ár!“ Og hann var virkilega að meina það,“ segir hún og brosir.
„Á þeim tímapunkti var ég heltekin af því að ég vildi ekki vera ein með eitt barn og vildi ég að Ísak Þór myndi eignast systkini,“ segir hún og útskýrir að þeim var ráðlagt að frysta sæði vegna þess að Kiddi yrði líklega ófrjór af lyfjunum.
„Svo þegar við fórum í Art Medica til þess að frysta sæði vorum við spurð hvort við værum að spá í barneignir í framtíðinni. Og ég svaraði: „já, núna!“ Kiddi horfði á mig hissa en ég sagði honum að ég ætlaði ekki að vera ein með eitt barn. Hann sagði þá: „hún ræður þessu, ég er að fara að drepast“,“ segir Stína og skellihlær.
„Þarna var ég 23 ára og búin að ákveða að ég ætlaði ekki að vera ein með eitt barn, heldur tvö, það væri miklu betra,“ segir hún og hlær enn meir.
„Þannig að í staðinn fyrir að frysta sæði fór ég beint í tæknifrjóvgun sem heppnaðist í fyrstu tilraun. Ég segi stundum að við höfum verið saman á meðgöngu, ég ólétt og hann í lyfjameðferð. Hann kláraði lyfjameðferð í október, sama mánuði og dóttir okkar Agla Björk fæddist,“ segir Stína og lýsir því að þegar komið var að fæðingu hafi hún leyft Kidda að sofa sem mest því hann var mjög veikur. Hún vildi að hann safnaði kröftum til þess að vera viðstaddur sjálfa fæðinguna. Hún var því ein í hríðunum og gekk um gólf. Á sömu stofu var annað par. Eiginmaðurinn þar var aldeilis hissa á þessu; að Kiddi skyldi bara sofa og ekki styðja við konu sína sem væri nánast komin að fæðingu.
„Ég hélt að hann myndi hjóla í Kidda. Ég sá svipinn á honum. Hann var farinn að bjóða mér aðstoð, þar til ég sagði honum sannleikann, að Kiddi væri að klára erfiða lyfjameðferð,“ segir hún.
„Maður hugsar eftir á, hvernig datt okkur í hug að eignast annað barn, en það er þannig að þegar maður fær svona fréttir, að það sé ekki langt eftir, skiptir mestu máli að lifa. Að einblína ekki á dauðann heldur hvað maður getur gert í lífinu.“
Stína segir að hún hafi oft verið með miklar áhyggjur af framtíðinni en að Kiddi hafi alltaf verið jákvæður og lifað í núinu.
„Frasinn hans var, lífið er frá a-ö, það er bara misjafnt hvað er langur tími á milli. Hvað ætlar þú að gera? Ætlar þú að vera með áhyggjur af einhverju sem gerist kannski eða ætlar þú að lifa lífinu núna?“
Síðustu tvö ár í lífi Kidda voru öllum ákaflega erfið. Blaðamaður tók einmitt viðtal við Stínu haustið 2016 en þá voru Hressleikarnir í Hafnarfirði haldnir til þess að styðja við bakið á fjölskyldunni fjárhagslega. Í því viðtali sagði Stína að hún vildi nota tímann sem eftir væri til þess að vera saman og búa til góðar minningar. Stína vildi ekki að Kiddi væri með í viðtalinu og sagði mér þá í trúnaði að heilakrabbinn hefði breytt persónuleika hans. Ég spyr hana því nú hvort þeim hafi tekist að búa til góðar stundir eða hvort þetta hafi verið erfiðara en hún átti von á.
„Þetta var þúsund sinnum erfiðara. Það var mjög ruglað að ég varð hreinlega öfundsjúk þegar ég heyrði að einhver ætti að deyja úr ristilkrabba eða einhverju öðru, en þarna var þetta komið í framheilann og ef þú gúgglar framheilaskaða og margfaldar með hundrað, ertu komin með útkomuna hans Kidda,“ segir hún.
„Ég var farin að greina svo miklar persónuleikabreytingar áður en hann greindist aftur. Síðasta árið var ég farin að tala um Kristján Björn, því mér fannst þetta ekki vera Kiddi, þótt einstaka sinnum glitti í hann. Hann höndlaði mjög lítið og gat ekki verið mikið innan um börnin. Hann var farinn að sýna hegðun sem hafði aldrei verið í hans karakter. Við þurftum að taka ákvörðun í nóvember 2016 um að hann færi annað,“ segir hún og útskýrir að þau hjón hafi áður skoðað saman vel á netinu afleiðingar framheilaskaða.
„Kiddi hafði beðið mig um að lofa sér því að ef hann yrði skapvondur og myndi fara að gera eitthvað fáránlegt sem hann myndi aldrei gera venjulega, að gefa sér lyf svo hann fengi að deyja eða hann myndi labba í sjóinn. Hann hræddist mest að verða einhver annar en hann var. Svo þegar það gerðist, þá áttaði hann sig ekki á því sjálfur. Hann var farinn að sækja mikið barinn og þá þurfti ég að setja honum reglur um að hann mætti ekki koma heim til okkar barnanna, en hann gisti þá hjá foreldrum. Hann hafði sagt við mig áður: „Undir öllum kringumstæðum, sama hvernig ég verð, viltu alltaf taka börnin fram yfir mig. Viltu alltaf hugsa um þau fyrst.“ Þetta var svo erfitt, að velja á milli hans og barnanna; mig langaði að vera með honum en mig langaði ekki að vera með honum af því þetta var ekki hann. Það sást ekkert endilega utan á honum hversu veikur hann var,“ segir hún og bætir við að erfitt hafi verið að finna viðeigandi stað fyrir Kidda.
„Það er enginn staður á Íslandi fyrir ungt fólk með framheilaskaða, hvort sem það er af völdum krabbameins eða slysa. Ég fór á fund með hellingi af læknum og Vigfúsi presti til þess að finna einhver úrræði því það var svo mikið álag fyrir fjölskylduna að sinna einstaklingi sem er ekki í lagi í kollinum. Það var hægt senda hann á heilabilunardeild á hjúkrunarheimili, en hann var 35 ára! Það er ekki í lagi. Það var Valgerður [Sigurðardóttir, yfirmaður á líknardeild] sem bjargaði lífi okkar og tók hann þangað inn og gaf honum lyf til þess að róa hann niður. Þar gat hann verið í hvíldarinnlögn, en hann var ekki sáttur og strauk. Hann fór líka á heilsuhælið í Hveragerði og strauk þaðan og aftur á líknardeild og strauk. Hann var bara alltaf að strjúka!“ segir hún og hlær.
„En auðvitað skil ég það vel, að vilja ekki vera hent inn á stofnun 35 ára. Það endaði þannig að hann flutti heim til foreldra sinna áður en hann endaði á líknardeild, því hann höndlaði ekki áreitið sem fylgir því að eiga þrjú börn. Mjög virk börn.“
Næstu mánuði lifði hún í þessari óvissu um hvenær hann myndi deyja. Fyrst var talið að hann myndi ekki ná jólum 2016, svo var talið að hann myndi ekki ná fermingu sonarins vorið 2017.
„Ferlið var svo langt og biðin svo löng. Hann fór svo inn á líknardeild í maí og dó 19. júlí. Ég bjó inni á líknardeild og krakkarnir voru þarna mikið en maður þurfti að sinna þeim líka. Þarna var ég að deyja úr samviskubiti að geta ekki verið nóg með honum,“ segir hún en bætir við að hún sé heppin með fjölskyldu sem stóð þétt við bakið á henni og hjálpaði heilmikið með börnin svo hún gæti vakað yfir Kidda.
„Þegar maður er búin að vera ástfangin af manni í fimmtán ár og sér hann breytast svona þarf maður að taka ákvarðanir en fær svo móral að vera ekki að gera nóg. Og móral yfir að hugsa að vonandi færi þetta að klárast, ég gæti ekki meir. Þetta var svo brenglað og svo mikið álag fyrir mig og krakkana. Við þurftum að horfa upp á hann missa allt sitt, hann var alveg farinn. Það er ekkert líf,“ segir hún.
„Hann sofnaði svo 6. júlí en hann hafði skrifað undir skjal um að ekki ætti að halda honum á lífi með næringu ef svo færi,“ segir Stína.
„Tíu ára brúðkaupsafmæli okkar 14. júlí var skelfilegur dagur. Hann veinaði af sársauka og leið svo illa, þrátt fyrir að vera á morfíni. Þetta var hræðilegt. Við höfðum alltaf talað um að endurnýja heitin okkar eftir tíu ár, í fjörunni hjá Stokkseyri og þetta átti að vera svo rómantískur dagur. Í staðinn var þetta dagurinn sem ég hélt að Kiddi myndi deyja. Svo dó hann í þrjár mínútur og ég hélt í höndina á honum. Allt í einu dregur hann djúpt andann aftur og lifnar við og við vorum alveg, hvað er að gerast? Ég sagði honum að hann mætti fara, hann þyrfti ekki að berjast um lengur. Líklega hefur hann orðið heilabilaður eftir þetta því hann kvaldist ekki meir. Svo nokkrum dögum síðar gerðist þetta aftur, hann hætti að anda í nokkrar mínútur og var dáinn, en lifnaði svo aftur við. Þá fékk ég taugaáfall. Maður var búin að kveðja,“ segir hún.
„Svo næsta dag, 19. júlí, fer mamma inn til hans. Þarna vorum við orðin svo langþreytt. Mamma hringdi þá í mig og sagði mér að koma, en ég var þá stödd á kaffistofunni á líknardeild. Hún sagði að það væri eitthvað að gerast. Ég fór inn til hans og horfði á hann taka síðasta andardráttinn. Við sátum þarna ég og mamma og systir hans og horfðum á hann og okkur til skiptis. Svo bara grenjuðum við úr hlátri. Systir mín kom þá inn og sá að Kiddi var dáinn og við að hlæja. Það var eins og hann hefði ætlað að fara þegar enginn væri þarna, en oft var stofan hans full af fólki. Hann dó með glott á vörum, alveg eins og hann væri að hlæja að okkur þannig að við hlógum bara, þar til við áttuðum okkur á því að hann væri dáinn í alvöru. Þá grétum við. Grátur og hlátur er bara sitt hvor endinn á sömu tilfinningu. En það var gott að hann kvaldist ekki þegar hann dó og hann fór með bros á vör,“ segir Stína.
Stína segir það hafa verið mikinn létti að geta einbeitt sér alfarið að því að sinna börnunum eftir lát Kidda. Hún dreif sig í útilegu með börnin þremur dögum eftir jarðarförina.
„Í útilegunni var gott að segja sögur af Kidda, hlæja og gráta og muna hvað hann hefði verið dásamlegur. En svo um haustið þegar skólinn byrjaði hjá krökkunum og lífið tók við, krassaði ég. Eða kannski frekar varð ég alveg dofin. Ég fann ekki gleði, ekki sorg, ég bara var. Ég komst að því síðar að þetta væri einkenni áfallastreituröskunar. Líkaminn hrundi og ég fékk vefjagigt,“ segir hún.
Hún komst inn á Reykjalund í desember sama ár og var sett á gigtarsvið, sem henni fannst fáránleg tilhugsun. „Þarna var ég 33 ára ekkja með þrjú börn og gigt! Mér fannst bara lífi mínu lokið, ég væri hundrað ára. Þá áttaði ég mig á því að ég var ekki búin að hugsa um sjálfa mig í mörg ár,“ segir hún.
„Ég ákvað þarna að það væri kominn tími til að setja mig í fyrsta sæti. Ef ég ætlaði að vera til staðar fyrir börnin mín þyrfti ég að vera í lagi. Þegar mömmunni líður ekki vel, líður engum vel.“
Stína, sem hafði starfað sem hársnyrtir alla tíð, hafði tekið hlé á vinnu tveimur árum áður en Kiddi dó til þess að hugsa um hann og börnin á þessum erfiðu tímum. Eftir lát hans vissi hún ekki hvort hún vildi snúa til baka í hárgreiðsluna.
„Ég ætlaði að fara beint að vinna eftir að hann dó en svo áttaði ég mig á því að mig langaði ekki að fara aftur að klippa, þótt mér hafi alltaf þótt það gaman. En ég hugsaði, ég ætla að fara að gera eitthvað allt annað; ég var búin að sjá að lífið er allt of stutt. Kiddi hafði alltaf verið að hvetja mig til þess að fara að læra eitthvað annað en mér fannst það svo óábyrgt, með þrjú börn. En svo ákvað ég bara að vera óábyrg þegar ég var ein með þrjú börn!“ segir hún og hlær.
Stína gaf sér góðan tíma til þess að vinna úr sorginni og vinna í sjálfri sér bæði andlega og líkamlega. Þá kom hugmynd frá vinkonu að fara á kynningarfund um markþjálfun. „Ég gekk út af fundinum og hugsaði, vá, þetta er það sem ég ætla að gera! Að hjálpa fólki að efla sína styrkleika og vaxa. Þarna var ég komin með stefnu og ég skilaði lyklunum að hárgreiðslustofunni,“ segir hún.
Á svipuðum tíma fékk hún skilaboð frá annarri vinkonu hvort þær ættu ekki að skella sér í kvennaferð til Asoreyja, í jóga- og sjálfsstyrkingarferð.
„Ég hugsaði, jú, það er mjög ábyrgt af mér að fara bara til Asoreyja í ellefu daga frá börnunum mínum, eða þannig! En svo hugsaði ég bara, ég fer! Sem betur fer var Kiddi líftryggður og ég gat borgað inn á lánið okkar og borgað skuldir og átti smá varasjóð. Ég ákvað að nýta það til þess að byggja mig upp, kannski var það það sem ég þurfti,“ segir Stína.
Nokkrum dögum eftir að hún hóf námið í markþjálfun fór hún í ferðina. „Ég ákvað að ég mætti setja mig í fyrsta sæti og finna út hver ég væri, án Kidda. Hver er Stína, ekki Stína hans Kidda? Þótt það hljómi svo væmið þessi frasi að finna sjálfan sig, þá er það svo rétt. Ég var svo týnd, búin að tapa kjarnanum mínum.“
Hún segir ferðina hafa verið nákvæmlega það sem hún þurfti. „Þarna voru yndislegar konur á öllum aldri og það var slakað á og ég náði að meðtaka það sem ég hafði gengið í gegnum. Svo eru Asoreyjar fallegasti staður sem ég hef komið til. Þarna fann ég að mér mætti finnast gaman; ég hafði verið í sorg og fannst ég ætti að vera í sorg. En ég áttaði mig á að Kiddi hefði ekki viljað að mér þætti ekki gaman. Þarna hugsaði ég, ég ætla að taka Kidda á þetta. Lifa fyrir daginn í dag og gera það sem mér fannst gaman. Þegar ég kom til baka fannst mér eins og hefði birt til. Þetta breytti mér gjörsamlega. Ferðin var vendipunktur á mínum bataferli.“
Stína kláraði markþjálfunarnám í Evolvia og er nú í framhaldsnámi sem hún klárar næsta vor. Hún fékk ACC-réttindi hjá alþjóðlegum markþjálfasamtökum nú í vikunni. Stína stofnaði nýverið fyrirtækið Eldmóður markþjálfun og er strax komin með viðskiptavini og fer einnig í fyrirtæki.
„Ég er að koma mér af stað í þessu, og fór líka í haust í brautargengi kvenna í Nýsköpunarmiðstöð Íslands, af því að ég kann ekkert að reka fyrirtæki, þannig að ég tók eina önn í því. Svo er ég að fara af stað með eitt ástríðuverkefni sem er að tala um sjálfsmynd og kynheilbrigði við unglinga, fara í framhaldsskóla og grunnskóla. Ég fer í fyrsta skólann núna í janúarlok og vona að fleiri skólar óski eftir því að ég komi. Þetta er bland af forvarnafræðslu og markþjálfun en þarna er ég að tala um reynslu mína en ég var unglingur með skerta sjálfsmynd. Ég hefði þurft að heyra þetta þegar ég var sextán ára,“ segir hún.
Stína notar sára lífsreynslu til góða og segist verða að finna tilgang með dauða Kidda.
„Það skiptir svo miklu máli að fræða. Og ef það er hægt að nýta reynsluna til góðs er það þess virði. Ég vil ekki detta í fórnarlambshlutverkið. Ég á auðvitað slæma daga þar sem ég vil ekki fara fram úr. En þeir eru orðnir miklu færri. Maður þarf að finna tilgang í hlutunum. Ég á þrjú börn og vil vera fyrirmynd fyrir þau og ég reyni að tala mikið um pabba þeirra, það góða. Ég er komin á góðan stað núna með sjálfa mig og börnin mín; það hefur mikið breyst á síðustu mánuðum.“
Er framtíðin björt?
„Já. Af því að ég er búin að sjá á einu ári hvað maður gert mikið með því að vinna í hlutunum og vinna í sjálfum sér. Ég er búin að finna Andagift sem nærir sálina og ég gef sjálfri mér rými til þess að finna alls konar tilfinningar. Ég má gráta og ég má hlæja og þótt ég sé ekkja þá má mér finnast gaman. Nú er ég komin á þann stað að ég er tilbúin að halda áfram með lífið, þótt auðvitað söknum við Kidda. Draumur okkar barnanna er að kaupa lóð uppi í sveit og byggja lítinn kofa og fara að rækta tré. Við erum að safna klinki. Það er svo gaman að stefna að einhverju saman. Þetta tekur örugglega hundrað ár, miðað við klinkið sem komið er í krukkuna,“ segir Stína og hlær.
Spurð hvort hún vilji segja eitthvað að lokum svarar Stína: „Ekki bíða með að gera eitthvað. Þú veist ekkert hvað þú hefur langan tíma.“
Viðtalið í heild er í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.