Norðuramerískur hörputittlingur sást í Kópavogi við Elliðavatn á fimmtudag. Fuglinn hefur ekki sést hér á landi síðan í nóvember árið 2008, en þá sást til hans í Höfn í Hornafirði.
Farfuglinn er afar sjaldgæfur á Íslandi og hefur að öllum líkindum flækst hingað til lands með vindum og lægðum suður yfir Atlantshafið, að sögn Yanns Kolbeinssonar fuglasérfræðings. „Þessi fugl kom örugglega ekki viljandi til landsins, hann hefur lent í óveðri og endað hér,“ segir Yann.
Hörputittlingur hefur ekki sést á suðvesturhorni landsins síðan árið 1981 að sögn Yanns, en þá sást hann á Langholtsvegi í Reykjavík. Hann segir að hörputittlingurinn sé skógarfugl og algengur garðfugl erlendis og haldi sig að mestu í N-Ameríku og Kanada. Fuglinn sást í gær í sjöunda skiptið á Íslandi.
Óskar Andri, áhugaljósmyndari, kom auga á hörputittlinginn við heimili sitt í Kópavoginum. Hann var í garðinum og tilbúinn með myndavélina þegar fuglinn settist á trjágrein fyrir framan hann, en þá var hann fljótur að átta sig á því að um sjaldgæfa fuglategund væri að ræða. Því var Óskar ekki lengi að smella mynd af hörputittlingnum og birta á instagramsíðu sinni.
View this post on InstagramA post shared by Óskar Andri (@oskar.andri) on Jan 24, 2019 at 11:57am PST