Líkaði ekki röddin í sjálfum sér

Baldur Hafstað, fv. prófessor í íslenskum bókmenntum, Ingólfur B. Kristjánsson …
Baldur Hafstað, fv. prófessor í íslenskum bókmenntum, Ingólfur B. Kristjánsson ritstjóri og Aðalsteinn Júlíus Magnússon, framkvæmdastjóri Hlusta.is. mbl.is/​Hari

Við elskum sögur er slagorð vefjarins Hlusta.is þar sem á annað þúsund hljóðbækur er að finna.

„Við höfum verið að byggja þennan vef upp í ellefu ár. Þetta byrjaði á vinnslu á hljóðskrám fyrir grunnskóla en út frá því kviknaði sú hugmynd að búa til heimilisbókasafn fyrir almenning. Því áttum við lénið hljóðbókasafn.is sem lýsir starfseminni en gáfum það Blindrabókasafninu þegar nafn þess breyttist í Hljóðbókasafn Íslands,“ segir Aðalsteinn Júlíus Magnússon, framkvæmdastjóri Hlusta.is, en með áskrift, sem kostar kr. 1.490 kr. á mánuði, fær fólk aðgang að safninu eins og það leggur sig.

Vefurinn hefur byggt sig upp sjálfur og aldrei þegið styrki. Að sögn Aðalsteins stendur starfsemin undir sér í dag. „Það fer enginn út í svona starfsemi til að græða peninga en við erum réttum megin við strikið,“ segir hann.

Í skólabíl og frystihúsi

Hlusta.is virkar eins og hvert annað bókasafn. Aðalsteinn segir hljóðbækur njóta vaxandi vinsælda en upplagt sé að hlusta á efnið við margvíslegar aðstæður; eins og þegar fólk fer út að ganga eða skokka, er á keyrslu, í vinnunni eða bara heima í sófa í rólegheitunum. „Þegar við byrjuðum á þessu fengum við fyrst þakkir frá konu sem hafði sent barnið sitt með hljóðbók frá okkur í skólabílinn en dágóður spölur var í skólann. Strax á eftir fengum við þakkir frá fiskverkakonu sem hlustaði á bækurnar í vinnunni. Þetta undirstrikar hversu fjölbreyttur hópur hefur ánægju og yndi af hljóðbókum,“ segir Aðalsteinn.
Bæði er hægt að streyma eða hlaða niður efninu, eftir því hvort hentar viðkomandi betur. „Þeir sem eru með lágmarksgagnaflutning geta auðveldlega streymt efninu í símanum sínum. Njála er til dæmis um fjórtán klukkustundir sem slefar upp í eitt GB í farsíma,“ segir Aðalsteinn.

Hann ályktar að á bilinu 3-4% þjóðarinnar hafi áhuga á hljóðbókum Hlusta.is, mest fólk sem komið er yfir fertugt, jafnvel fimmtugt. „Við erum samt alltaf að sjá yngra fólk inn á milli og það er mikilvægt.“

Hann segir fleiri konur en karla vera í áskrift. „Ég vitna bara til orða Matthíasar Johannessen þess efnis að miðaldra konur haldi uppi bókmenntum á Íslandi,“ segir Aðalsteinn brosandi.
Nýtt efni kemur inn á vefinn í hverri viku og segir Aðalsteinn það hafa verið með þeim hætti frá því vefurinn tók til starfa. „Við kappkostum að koma með nýtt efni vikulega, jafnvel þótt það séu jól eða páskar,“ segir hann.

Spurður um samkeppni, eins og t.d. við Storytel, viðurkennir Aðalsteinn að Hlusta.is finni fyrir henni. Ekkert sé því þó til fyrirstöðu að báðir aðilar þrífist á markaðinum enda leggi Storytel meira upp úr nýju efni en gömlu.

Ýmsir hafa léð Hlusta.is rödd sína og nefnir Aðalsteinn fjölmiðlafólkið Ólöfu Rún Skúladóttur, Guðmund Inga Kristjánsson, Kristján Róbert Kristjánsson og Hallgrím Indriðason sem dæmi. Sjálfur kveðst hann hafa lesið tvær bækur inn á band en lét það gott heita. „Mér líkaði ekki röddin í sjálfum mér.“

Nánar má lesa um málið í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert