Guðrún Hauksdóttir Schmidt, móðir Þorbjarnar Hauks Liljarssonar sem lést í desember, hefur látið setja upp vegg með snögum við Lækjargötu þar sem fólk getur skilið eftir hlýjar flíkur handa utangarðsfólki.
Guðrún var gestur í þættinum Málið er á Rás 1 og sagði þar sögu sonar síns og hvernig var að horfa á eftir honum verða að útigangsmanni.
Vegginn setti Guðrún upp ásamt Guðnýju Pálsdóttur, og vonast hún til þess að fá hjálp borgaryfirvalda við að fá fastan samastað fyrir vegginn.
„Ég hugsaði auðvitað að hann gæti orðið næstur. Að það gæti verið... og hann var næstur, það var sorglegt. En einhver er næstur, það er alltaf einhver næstur,“ sagði Guðrún í þættinum. Hún er búsett í Danmörku en er afar þakklát fyrir að hafa hitt Þorbjörn í Reykjavík tíu dögum áður en hann lést.
Hún sagði þau hafa átt fallegan dag saman þar sem hann sýndi henni meðal annars aðstæður utangarðsfólks í borginni og hvar hann hefði sofið á bekkjum þegar hann fékk hvergi inni.