Afar kalt var á Norðausturlandi í gær. Þannig mældist 27,5 stiga frost á Möðrudal undir kvöld, 24,9 gráðu frost á Brú á Jökuldal og við Mývatn mældist 23,7 gráðu frost í bjartviðri og logni.
Að sögn Birkis Fanndals, fréttaritara Morgunblaðsins í Mývatnssveit hélt fólk sig þar mest inni við í gær.
Algengt er að mikið frost sé við Mývatn, að sögn Þorsteins V. Jónssonar, veðurfræðings á Veðurstofunni. Þannig háttar til að veðurmælirinn er á Neslöndum, sem þýðir að hann er umkringdur vatni. Því komi enginn hiti frá vatninu svo kuldapollur myndist. Hins vegar sé ekki eins kalt þegar fjær dragi.
Draga átti úr frostinu í nótt og í dag, en á svæðinu getur orðið mjög kalt, sérstaklega í stillum og björtu veðri, að sögn Þorsteins.