Umhverfisstofnun hefur fyrir sitt leyti fallist á umsókn Hestamannafélagsins Geysis um að byggja áningarhólf fyrir hesta innan friðlandsins að Fjallabaki.
Fram kemur í umsögn Umhverfisstofnunar að markmiðið með framkvæmdinni sé að stýra því hvar ferðamenn á hestum stoppi hrossarekstra innan svæðisins og minnka þannig rask á viðkvæmu landi. Árið 2018 höfðu viðkomu í Landmannahelli um 30 hópar hestamanna með alls um 1.275 hross á leið sinni í Landmannalaugar. Segir stofnunin, að slíkur fjöldi hrossa geti valdið þónokkru raski á svæðinu og viðkvæmur gróður svæðisins þoli illa slíkan ágang.
Stefnt er að því að setja upp hólfið í sumar við Frostastaðavatn en skipulögð reiðleið liggur þar um. Nákvæm staðsetning liggur ekki fyrir, en miðað verður við að setja hólfið niður þar sem lítill eða enginn gróður er fyrir.