Einar Þór Jónsson, framkvæmdastjóri HIV-samtakanna á Íslandi, segir að framsetning farsóttafrétta sóttvarnarlæknis og fréttaflutningur í kjölfar þeirra hafi verið misvísandi, þar sem talað var um óheillavænlega þróun kynsjúkdóma á Íslandi.
Í farsóttafréttum kom fram að mikil aukning hafi orðið á fjölda greindra með HIV-sýkingum á árinu 2018, en greiningarnar sem skráðar eru hjá landlækni eru ekki í öllum tilfellum nýjar. Í farsóttafréttum segir að þess beri að geta að „af þeim 39 sem greindust voru 30 af erlendu bergi brotnir“.
Af þeim 39 sem skráðir voru með HIV á árinu 2018 er talið að einungis fimm manns hafi smitast á Íslandi, en á heimasíðu landlæknis segir í tengslum við farsóttafréttir að þróun mála á Íslandi sé óheillavænleg.
Einar segir að fréttirnar hefðu mátt vera skýrari: „Þeir sem eru skráðir með HIV, ekki greindir heldur skráðir með HIV á árinu, er fólk sem er að flytja til landsins og er gjarnan með eldra greint HIV-smit. Þróunin er í raun ekkert óheillavænleg hjá okkur og víða er mælanleg minnkun á útbreiðslu HIV, til dæmis í Kaliforníu og í Bretlandi.
Þetta má kannski rekja til tilkomu Truvada-meðferðarinnar en einnig þess að nú fara allir strax á lyfjameðferð. Þegar fólk er komið á lyfjameðferð er það ekki smitandi, þannig að ég er handviss um að við eigum eftir að sjá mikla minnkun á sjúkdómnum á næstu árum.“
Hann tekur þó fram að þrátt fyrir bjartsýnisspána vilji hann minna á að smokkurinn sé í fullu gildi og fólk þurfi að bera ábyrgð á eigin heilsu. „Fólk á að gera það án ótta og án fordóma um það að ákveðnir hópar séu frekar smitandi en aðrir, því það er ekki þannig,“ segir Einar.