Fer fram á þunga refsingu í Shooters-máli

Saksóknari fer fram á nokkurra ára fangelsi yfir Artur Pawel …
Saksóknari fer fram á nokkurra ára fangelsi yfir Artur Pawel Wisock. mbl.is/Eggert

Saksóknari fer fram á nokkurra ára fangelsi yfir Artur Pawel Wisock sem er ákærður fyrir stórfellda líkamsárás og að hafa hrint dyra­verði á skemmti­staðnum Shooters 26. ág­úst. Dyravörðurinn er lamaður fyrir neðan háls eftir árásina.

Í samtali við mbl.is eftir aðalmeðferðina sagðist saksóknari ekki hafa nefnt ákveðinn árafjölda heldur vísað til fyrri dómafordæma varðandi refsingu.

Aðalmeðferð í máli Artur Pawel Wisock og Dawid Kornacki lauk í dag. Báðir voru þeir ákærðir fyrir sér­stak­lega hættu­lega lík­ams­árás, með því að hafa í fé­lagi við tvo óþekkta karl­menn veist með of­beldi að dyra­verði á Shooters. Auk þess er Artur ákærður fyrir áðurnefnda árás.

Saksóknari vísaði til að mynda til fordæmis í máli frá árinu 2015. Í því máli hlaut fórnarlambið varanlegar afleiðingar eftir þrjú hnefahögg og voru árásarmennirnir tveir dæmdir í fjögurra ára fangelsi. 

Var vísað til þess að miðað við þann dóm ætti refsing í þessu máli að vera þyngri ef tekið væri mið af afleiðingunum sem það hafði fyrir fórnarlambið og einnig að Artur réðst á annan dyravörð.

Farið er fram á sex til níu mánaða fangelsi að lágmarki yfir Dawid vegna árásar hans á dyravörð fyrir utan Shooters. 

Dómari hefur fjórar vikur til að kveða upp dóm í málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert