„Mér finnst þetta útsýni minna okkur á það hvað miðborgin er fallegur staður. Raunar finnst mér hvergi fallegra útsýni en héðan. Hér sérðu alla gömlu söguna birtast; Hótel Borg, Hótel Holt, Næpuna, Dómkirkjuna og Alþingi, Tjörnina og styttuna af Jóni Sigurðssyni. Þetta er það sem Kjarval sá,“ segir Hálfdán Steinþórsson, eigandi hugbúnaðarfyrirtækisins GoMobile, þar sem hann stendur í vinnustofu listamannsins Jóhannesar S. Kjarval á efstu hæð í Austurstræti 12 og horfir yfir Austurvöll.
Hálfdán og félagar hans hafa síðustu vikur og mánuði unnið að endurgerð umrædds húsnæðis og á næstunni munu þeir opna Vinnustofu Kjarvals, glæsilegt 400 fermetra húsnæði þar sem fyrirtæki og einstaklingar geta leigt sér aðstöðu. Hálfdán segir að vinnustofur í anda Kjarvals njóti vaxandi vinsælda víða um heim. Þar geti viðskiptavinir brotið upp hversdagsleikann, haldið fundi eftir þörfum, unnið einir þegar þeir vilji og deilt hugmyndum sínum með öðrum þegar þeim henti. Vinnustofan sé þannig bæði vinnustaður og félagsheimili, þar sem skapandi fólk kemur saman til vinnu og skemmtunar. Þarna borgar fólk leigu en fær á móti vinnuaðstöðu, kaffi, aðgang að fundarherbergjum, neti og prenturum. Opið verður frá morgni til kvölds.
Jóhannes S. Kjarval, einn virtasti listmálari þjóðarinnar, tók á leigu herbergi undir norðursúð í Austurstræti 12 árið 1929. Þar hafði hann vinnustofu til dauðadags árið 1972 og bjó þar einnig um langt árabil við frumstæðar aðstæður. Veggmyndina Lífshlaupið var þar að finna.
Hálfdán og félagar hans hafa verið með skrifstofuaðstöðu í þessu húsnæði síðustu fimm árin og kunnað vel við sig. Þeir hafa verið að vinna í ólíkum verkefnum en notið þess að deila húsnæði. „Við hittumst á morgnana og fannst æðislegt að fara yfir fréttirnar saman þegar við mættum. Svo fór hver að gera sitt og við tókum kannski stöðuna klukkan tíu og aftur í hádeginu. Þannig spratt þetta upp, hjá ungum hópi sem hafði metnað í að hafa skemmtilegt vinnuumhverfi á besta stað í Reykjavík. Við töluðum reyndar um að það væri gaman að geta labbað á inniskónum á barinn til að fá sér drykk og nú verður það hægt.“
Auk Hálfdánar eru í teyminu Páll Eyjólfsson, sem þekktur er sem umboðsmaður Bubba Morthens auk þess að reka GoMobile og Bæjarbíó með Hálfdáni, Alexander Gylfason sem rekur GoMobile í Danmörku, Hrannar Pétursson ráðgjafi og Aðalsteinn Jónsson Þorsteinsson, æskuvinur Hálfdánar frá Eskifirði, en hann mun verða framkvæmdastjóri Vinnustofu Kjarvals.
Hálfdán segir að fjöldi fyrirtækja hafi þegar tryggt sér pláss í Vinnustofu Kjarvals. Þau séu úr ýmsum geirum; fjármálageiranum, vísindageira, listageiranum og nýsköpun. Þá sé byrjað að taka inn fyrstu einstaklingana líka. „Við viljum auðvitað hafa fjölbreyttan hóp af fólki hérna,“ segir hann.
Þótt vinnustofan hefji upp íslenska sögu er fyrirmyndin sótt til útlanda. „Við horfum á fyrirmyndir úti í heimi eins og Soho House sem dæmi þar sem eru vinnustofur sem svo breytast í bari á kvöldin. Við höfum einmitt þegar gert samninga við sambærileg fyrirtæki í Evrópu og Singapúr og erum að horfa yfir til Ameríku núna. Þá geta okkar kúnnar labbað beint inn á þá staði og unnið með sambærilegum hætti. Við erum búin að festa 3-4 svona staði og munum hafa aðgang að slíkum í nánast hverri borg.“
Það er góður andi þegar maður labbar um Vinnustofu Kjarvals, enda segir Hálfdán að lagt hafi verið upp með að búa til þægilegt, heiðarlegt og átakalaust umhverfi. Hálfdán Pedersen hannaði Vinnustofu Kjarvals sem nær nú yfir efstu hæðir Austurstrætis 10 og 12, en opnað var á milli húsanna.
Það sem vekur mesta eftirtekt þegar þarna er komið inn er glæsilegur bar í miðrými. Barinn er skreyttur með rétt tæplega 40 þúsund gömlum íslenskum krónum frá árunum 1946 til 1973. „Allar krónurnar voru þrifnar upp úr rauðspritti og handlímdar á barinn. Þetta tók okkur um það bil sjö sólarhringa og við vorum með öll börnin okkar í vinnu hér á tímabili. Það skemmtilega er að ein af þessum 40 þúsund krónum snýr vitlaust og ef einhver finnur hana... þá er Yatzy í boði.“