Landspítalinn taki við ungmennum í fíknivanda

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur falið Landspítalanum að taka á móti ungmennum í neyslu- og fíknivanda sem SÁÁ hefur hingað til tekið á móti. Frá þessu greindi ráðherrann í tíufréttum RÚV, en þar kemur einnig fram að nærri tvöfalt fleiri eru í viðhaldsmeðferð við ópíóðafíkn hjá SÁÁ en samningur við Sjúkratryggingar kveður á um.

Fram­kvæmda­stjórn SÁÁ og meðferðarsvið sjúkra­húss­ins ákváðu í apríl í fyrra að hætta að veita ungmennum undir 18 ára meðferð á Vogi.

Ráðherra hefur sent Landspítalanum bréf þar sem fram kemur að spítalanum verði falið að sinna áfengis- og vímuefnameðferð fyrir börn og ungmenni, það er afeitrun, bráðaþjónustu og annarri sjúkraþjónustu sem hópurinn þarf á að halda. Að meðferð lokinni verður spítalanum einnig falið að vísa börnum og ungmennum í viðeigandi meðferð á BUGL eða Stuðlum.

Spítalinn hefur brugðist við bréfinu og segir Svandís að ýmsar breytingar þurfi að eiga sér stað svo spítalinn geti sinnt þjónustunni og miðað er við að úrræði af þessu tagi geti opnað í sumar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert