Nauðsynlegt að breyta klukkunni

Í lífeðlisfræðinni skiptir sólarljósið að kvöldi litlu fyrir líf okkar …
Í lífeðlisfræðinni skiptir sólarljósið að kvöldi litlu fyrir líf okkar og líðan, segir Karl Ægir um bollaleggingar um breytta klukku. mbl.is/Sigurður Bogi

Karl Ægir Karlsson, prófessor í taugavísindum, segir að á Íslandi þurfi fólk að sofa meira og að það sé einkennilegt að klukkan fylgi ekki hnattstöðu.

„Líkamsklukkan er þannig gerð af skaparanum að hringurinn er 25 klukkustundir og ef vísbendinga frá sólarljósi nýtur ekki við erum við að setja lífið í ójafnvægi. Á Íslandi þarf fólk einfaldlega að fylgja ljósinu og sofa meira,“ segir Karl í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.

Á síðustu árum hafa verið gerðar fjölmargar rannsóknir sem allar sýna mikilvægi þess að sólin og klukkan fylgist að. Það er líkamanum mikilvægt að nýta geisla morgunsólarinnar.

„Fólk taldi á sínum tíma mikilvægt að Ísland væri á sama tíma og helstu viðskiptalönd okkar, til dæmis Bretland þar sem tíminn er sá sami yfir veturinn en Norðurlöndin klukkustund á undan okkur. Vissulega eru þetta rök en með netvæðingu og sjálfsafgreiðslu á svo mörgu skiptir þetta minna máli en áður. Svo verður líka að halda til að haga að í Evrópu þar sem er sumartími og klukkan röng á sumrin, til þess að lengja birtuna yfir daginn, þá gerist það fyrstu mánuðina eftir breytingu eykst jafnan tíðni heilablóðfalls, hjartaáfalla og bílslysa. Að sofa er einfaldlega lífsspursmál fyrir okkur mannfólkið. Skertur svefn, eins og rannsóknir sýna, eykur tíðni hjarta- og æðasjúkdóma, Alzheimer, elliglapa, þunglyndis og kvíða svo eitthvað sé nefnt.“

Hin hliðin á því að seinka klukkunni um eina klukkustund svo við njótum morgunbirtunnar betur er að sólarljóss nýtur þá skemur í hinn endann. Öll þekkjum við sumarkvöldin fögur; notalegar stundir á veröndinni þegar ágústnóttin nálgast. Eða þann gæðatíma sem krakkarnir hafa til útleikja og ævintýra á björtum kvöldum þegar ómögulegt er inn að sofa. Karl Ægir segir þetta allt skiljanleg sjónarmið en minnir á vísindin.

„Í lífeðlisfræðinni skiptir sólarljósið að kvöldi litlu fyrir líf okkar og líðan, það er morgunbirtan sem öllu máli skiptir. Líkamsklukkan er þannig gerð af skaparanum að hringurinn er 25 klukkustundir og ef vísbendinga frá sólarljósi nýtur ekki við erum við að setja lífið í ójafnvægi. Á Íslandi þarf fólk einfaldlega að fylgja ljósinu og sofa meira; skv. nýjum tölum sofa ungmenni á Íslandi rétt rúmar 6 klukkustundir á sólarhring, sem er allt of lítið. Og haldi þessu áfram blasir við okkur eftir 20 ár eða svo faraldur þeirra sjúkdóma, eins og ég nefni hér að framan,“ segir Karl í viðtali við Morgunblaðið en viðtalið má lesa í heild í blaði dagsins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert