Takmörkuð stéttaskipting, velmegun íslensks samfélags og nýjungagirni eru ástæður þess að Ísland er enn það land í Evrópu sem notar netið hvað mest, að mati félagsfræðingsins Þorbjörns Broddasonar, prófessors emeritus við félags- og mannvísindadeild Háskóla Íslands.
„Jafnvel þó að við megum sannarlega ekki loka augunum fyrir mismunandi efnahag fólks, það eru hlutir sem þarf sannarlega að taka á, þá er tiltölulega lítill þjóðfélagslegur og fjárhagslegur munur innanlands. Það held ég að hafi áhrif á að nýmæli breiðast út í öllum hópum.“
Nýjar tölur Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins, sýna fram á að 99% Íslendinga á aldrinum 16 til 74 ára nota netið reglulega en fast á hæla þeirra koma Danir (98%). 91% Íslendinga notar netið fyrir samfélagsmiðla en einungis 56% íbúa ESB gera það.
„Bjartsýnin um að þetta yrði okkur til tómrar blessunar, yrði bara endalaus upplýsing, verður sér að nokkru leyti til skammar vegna þess að það sýnir sig að við festumst í okkar þrönga bergmálshelli á netinu. Vélmenni eru farin að ráðskast með það hvað kemur fyrst fyrir augu okkar á skjánum, við erum hætt að hafa þetta sjálfstæða val. Svo ég tali ekki um þegar farið er að dæla inn falsupplýsingum í þágu einhverra þröngra einkahagsmuna. Netvæðingin er náttúrulega stórkostleg blessun en þetta er líka vaxandi böl,“ segir Þorbjörn.
Íslendingar skera sig úr þegar spurt er um hlustun á tónlist á netinu en 81% Íslendinga á fyrrgreindum aldri gerir það. Næst á eftir koma Finnar en 71% þeirra hlustar á tónlist á netinu. Þá notar engin þjóð netið meira en Íslendingar til að senda og taka á móti tölvupósti en hér á landi sögðust 95% gera það.
„Það verður ekki kveðið nógu sterkt að orði um þær félagslegu og menningarlegu breytingar sem hafa orðið á síðustu tveimur áratugum vegna veraldarvefjarins,“ segir Þorbjörn í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.