Á næstu vikum munu hugmyndir fyrir nýja slökkvistöð á höfuðborgarsvæðinu líklega líta dagsins ljós, en um er að ræða slökkvistöð sem taka á við af stöðinni á Tunguhálsi. Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu, segir að 2-3 möguleikar meðfram Breiðholtsbraut, milli Seljahverfis í Reykjavík og Hvarfahverfis í Kópavogi, séu á teikniborðinu núna á lokametrunum.
Færsla slökkvistöðvarinnar hefur lengi verið til umræðu, en eftir að ný slökkvistöð var tekin í notkun í Mosfellsbæ árið 2015, var orðið nokkuð stutt á milli stöðvanna á Tunguhálsi og Mosfellsbæ mælt í útkallstíma.
Jón Viðar segir að með nýrri stöð sé sérstaklega horft til þess að þjónusta austurhluta þjónustusvæðis slökkviliðsins, en þá er meðal annars átt við efri byggðir Breiðholts og Kópavogs. Samgöngur á milli þessara hluta höfuðborgarsvæðisins hafa ekki hjálpað til við að stytta útkallstíma, en samtenging með lokaáfanga Arnarnesvegar frá Salahverfinu yfir á Breiðholtsbraut hefur lengi átt að bæta þær. Enn sér þó ekki fyrir lokin á þeirri framkvæmd.
Fyrir um 10 árum var meðal annars horft til þess að koma slökkvistöðinni fyrir við Stekkjarbakka, en horfið var frá þeim áformum. Jón Viðar segir að með þróun höfuðborgarsvæðisins telji menn nú að slökkvistöð meðfram Breiðholtsbrautinni sé skynsamlegasti kosturinn.
Suður-Mjóddin er að hans sögn ekki vænlegur staður fyrir stöðina, en Jón Viðar segir að viðbragðsaðilar forðist að hafa stöðvar staðsettar beint fyrir neðan brekku þannig að fyrstu mínútur útkalls séu að keyra upp brekku. Því hafi menn horft upp meðfram Breiðholtsbrautinni. Milli Fella- og Bakkahverfis, fyrir neðan bensínstöðina, er opið svæði. Jón Viðar segir að það hafi verið kannað vel, en uppbygging þar hafi kallað á talsverð jarðvegsskipti og það hafi því ekki talist fýsilegt.
Því hafi verið horft á svæðið meðfram Breiðholtsbraut sem er á milli Jafnasels og Urðarhvarfs. Segir hann að 2-3 möguleikar séu á borðinu og vonandi verði hægt að kynna deiliskipulagstillögur á komandi vikum.
„Þetta myndi bæta viðbragðstíma fyrir Kópavoginn og ekki síður Breiðholt, bæði Seljahverfi, Efra-Breiðholt og Mjóddina,“ segir Jón Viðar og bætir við að þessi færsla stöðvarinnar myndi hafa góð áhrif á viðbragðstíma slökkviliðsins í það heila.
Jón Viðar segir færslu stöðvarinnar þó í raun vera tveggja fasa verkefni. Í fyrsta lagi sé að byggja upp nýja stöð og flytja. Hins vegar sé að klára Arnarnesveginn og tengja Breiðholtsbrautina betur inn í efri byggðir Kópavogs. Segir hann þá framkvæmd jafnvel vera mikilvægari upp á útkallstíma að gera.
Samkvæmt áformum slökkviliðsins er gert ráð fyrir að búið verði að byggja nýja slökkvistöð árið 2021, en hún yrði fjármögnuð af Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins (SHS) sem er byggðasamlag sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Segir Jón Viðar að annað hvort yrði það með lántökum eða greiðslum frá sveitarfélögunum.
Hann segir öll sveitarfélögin hafa sent skýr skilaboð um að slökkviliðsmálin eigi að vera í lagi og þau standi á bak við þessa breytingu.